Skip to main content
Frétt

Neyðarboð með SMS-skeyti til 112

By 6. apríl 2006No Comments
Nýja þjónustan hefur verið þróuð í samráði við ÖBÍ hjá 112. Heyrnarlausir, heyrnarskertir og aðrir sem eiga erfitt með að tala geta nú sent neyðarboð til 112 og átt samskipti við neyðarverði með SMS-skilaboðum.

Heyrnarlausir, heyrnarskertir og aðrir sem eiga erfitt með að tala geta nú sent neyðarboð til 112 og átt samskipti við neyðarverði með SMS-skilaboðum. Með því aukast verulega líkur á að unnt verði að koma viðkomandi til aðstoðar á neyðarstundu. Þjónustan verður kynnt sérstaklega fyrir þeim sem þurfa á henni að halda en áríðandi er að allir aðrir hringi í 112 til þess að koma neyðarbeiðnum á framfæri. Það auðveldar 112 og viðbragðsaðilum mjög að bregðast rétt við.

Nýja þjónustan var þróuð í samráði við ÖBÍ en þær tæknilegu breytingar sem til þurfti voru gerðar í samvinnu 112, símafyrirtækjanna og verkfræðistofunnar Samsýnar. Neyðarverðir 112 hafa fengið nauðsynlega þjálfun til þess að bregðast við neyðarbeiðnum sem berast með SMS. 112 er ekki kunnugt um að boðið sé upp á sambærilega þjónustu í öðrum löndum.

Þurfi einstaklingur sem ekki getur tjáð sig í gegnum síma á aðstoð að halda sendir hann SMS til 112 með beiðni um aðstoð. Best er að fá strax í fyrstu skilaboðum upplýsingar um hvað bjátar á og hvar viðkomandi er staddur. Skilaboðin birtast á skjá hjá neyðarverði ásamt upplýsingum um símanúmer, skráðan eiganda símans og heimilisfang hans. Í gagnagrunni 112 stofnast þá mál eins og um neyðarsímtal væri að ræða. Neyðarvörður hefur síðan samskipti við viðkomandi í gegnum SMS eftir föngum.

Neyðarvörður getur ekki staðsett GSM-síma út frá SMS-skeyti en lykilatriði er að komast að því hvar viðkomandi er staddur. Komi það ekki fram strax í upphafi getur viðkomandi gefið það til kynna með því svara spurningu neyðarvarðar um það með SMS eða með því að hringja í 112 því unnt er að staðsetja símann út frá hringingunni.

Mikilvægt er fyrir þá sem gætu þurft að nota þessa þjónustu að hafa tilbúin skeyti í síma sínum sem auðvelt og fljótlegt er að opna og senda á neyðarstundu. Það á ekki síst við sérstaka áhættuhópa, svo sem hjartveika.

Nánari upplýsingar:
Dagný Halldórsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri 112, í síma 820 1000.
Berglind Stefánsdóttir, formaður Félags heyrnarlausra, bs@hlidaskoli.is