Skip to main content
Frétt

Niðurfelling eða skerðing lífeyris til 1.900 öryrkja!

By 11. október 2009No Comments
Á föstudag fékk ÖBÍ nokkrar innhringingar fólks sem borist hafði bréf Greiðslustofu lífeyrissjóð þar sem þeim var tilkynnt um niðurfellingu eða skerðingu örorkulíseyris frá sínum lífeyrissjóði.

Við eftirgrenslan hjá Greiðslustofu lífeyrissjóða, kom í ljós að þeir væru að gera reglubundna tekjuathugun hjá örorkulífeyrisþegum samkvæmt samþykktum sjóðanna.

Örorkulífeyrisgreiðslur til um 1200 öryrkja munu lækka og falla alveg út hjá tæplega 700 öryrkjum. Samtals eru því um 1.900 heimili að fá þennan glaðning þessa vikuna. Hækkun verður hjá 200 öryrkjum.

Harkalegar breytingar hjá sumum strax 1. nóvember en hjá flestum 1. desember.

Breyting verður á örorkulífeyrisgreiðslum vegna nóvemberlífeyris. Langflestir lífeyrisþegar eru á eftirágreiddum lífeyri að sögn Greiðslustofu og því munu greiðslurnar breytast frá 1.desember nk. 

Nokkrir lífeyrisþegar sem eru með fyrirframgreiddan lífeyri, munu þó fá breytingar á greiðslum sínum strax þann 1. nóvember.

Sjóðirnir sem gerðu tekjuathugun að þessu sinni hjá örorkulífeyrisþegum eru:
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda
Gildi lífeyrissjóður
Lífeyrissjóður bænda
Stafir lífeyrissjóður
Sameinaði lífeyrissjóðurinn
Stapi lífeyrissjóður
Lífeyrissjóður Rangæinga
Festa lífeyrissjóður
Lífeyrissjóður Vestfirðinga
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja

Öryrkjabandalagið er að kalla eftir að ofangreindir lífeyrissjóðir fresti aðgerðum sínum þar til dómur fellur í máli því sem ÖBÍ höfðaði gegni Gildi lífeyrissjóði vegna sambærilegs máls. Höfðað var prófmál fyrir hönd eins lífeyrisþegar sem lenti í sambærilegri tekjuathugun 2007 og varð fyrir verulegri skerðingu. Í Héraðsdómi var málinu vísað frá vegna vanhæfis ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis, Baldurs Guðlaugssonar, til að veita samþykki fyrir breytingum á samþykktum lífeyrissjóðanna, því hann sat sjálfur í stjórn eins lífeyrissjóðssins sem óskaði breytinga á sínum samþykktum. Gildi nýtti sér rétt til að áfrýja til Hæstaréttar og er niðurstöðu að vænta undir lok þessa ár frá Hæstarétti.