Skip to main content
Frétt

Norræna ráðherranefndin fleygir út samtökum fatlaðra!

By 9. október 2012No Comments

Formaður og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands sátu árlegan haustfundi NHPR (Nordiska Handikap Polotiska Rådet), 4. október síðastliðinn í Kaupmannahöfn. Undanfarna fundi hefur verið mikil umræða um hvernig samtök fatlaðra á Norðurlöndunum næðu beinna sambandi við Norrænu ráðherranefndina, en NHPR er þar undirnefnd.

Fyrir fundinn var talað um að kynna á honum nýtt fyrirkomulag ráðsins og var töluverð eftirvænting í hópnum að sjá jákvæðar breytingar. Það voru því gýfurleg vonbrigði þegar þær voru kynntar og farið þvert á Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem kveður á um að ávalt skuli hafa samtök fatlaðra með í ráðum, eða eins og við orðum það: Ekkert um okkur án okkar.

Formenn og framkvæmdastjórar heildarsamtaka fatlaðra á Norðurlöndum sömdum í framhaldinu svohljóðandi ályktun.

Norræna ráðherranefndin brýtur gegn sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og svíkur því 3,5 miljónir norrænna ríkisborgara.

NHPR (Nordiskt handikappolitiskt råd) var stofnað fyrir 15 árum með það að markmiði að vera ráðgefandi og stefnumarkandi um málefni fatlaðra fyrir norrænu ráðherranefndina. Á liðnum árum hefur ráðið verið skipað embættismönnum, stjórnmálamönnum og fulltrúum norrænna samtaka fatlaðra. Metnaðurinn var mikill þegar ráðið var stofnað og við hjá norrænum samtökum fatlaðra höfum haft miklar væntingar um að ráðið myndi stuðla að þróun norrænnar samvinnu og stefnu í málefnum fatlaðra. Við höfum litið á það sem okkar sjálfsagða hlutverk að miðla af reynslu okkar í þessu mikilvæga starfi.

Á liðnum árum hefur NHPR ekki staðið undir væntingum og síðustu árin hefur verið ljóst að þörf væri á endurbótum á ráðinu. Við hjá samtökum fatlaðra höfum látið það skýrt í ljós að styrkja þyrfti samskiptin við ráðherranefndina til að ná fram betri árangri.

Í stað þess hefur ráðherranefndin ákveðið að fjarlægja fulltrúa samtaka fatlaðra úr NHPR. Þessi meðferð á samtökum okkar stangast algjörlega á við þær skuldbindingar sem norrænu ríkin undirgengust þegar þau undirrituðu sáttmálann um réttindi fatlaðs fólks.

Í sáttmálanum stendur skýrum stöfum að:

„Aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“ (4. gr. 3. tl.)

Norræna ráðherranefndin kýs nú þess í stað að fjarlægja samtök fatlaðs fólks úr NHPR. Ráðherranefndin hyggst framvegis móta norrænt samstarf og norræna stefnu í málefnum fólks með fötlun án fulltrúa norrænna samtaka fatlaðra. Það er afar óheppilegt að Norræna ráðherranefndin skuli svo augljóslega brjóta gegn sáttmála sem hún hefur skuldbundið sig til að fylgja. Við getum ekki sætt okkur við það.


HNR (Handikapporganisationerna i Norden)

Í HNR eru helstu heildarsamtök fatlaðs fólks á Norðurlöndunum og á sjálfstjórnarsvæðunum. Þessi ályktun var samin á sameiginlegum fundi HNR í Kaupmannahöfn 5. október 2012.

Nánari upplýsingar veita (á Íslandi):

  • Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, 895-1307
  • Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands, 869-0224