Skip to main content
Frétt

Ný reglugerð um trúnaðarmenn fatlaðs fólks

By 25. febrúar 2011No Comments
Reglugerð172/2011 um trúnaðarmenn fatlaðs fólks tók gildi 22. febrúar sl. þar kemur meðal annars fram að…

Velferðarráðherra skipar trúnaðarmenn fatlaðs fólks að fengnum tillögum frá heildar­samtökum fatlaðs fólks. Þá eina má skipa trúnaðarmenn sem hafa þekkingu og reynslu af málefnum fatlaðs fólks. Leitast skal við að skipa trúnaðarmenn sem hafa menntun sem nýtist í starfi trúnaðarmanns.

Trúnaðarmenn skulu skipaðir til fjögurra ára í senn. Þó getur ráðherra ákveðið að skipunartíminn sé styttri ef aðstæður krefjast. Við skipun skal hverjum trúnaðarmanni sett erindisbréf þar sem fram koma þær kröfur sem til hans eru gerðar, þóknun og fjöldi tíma sem trúnaðarmaður skal skila á móti þeirri þóknun.

Fjöldi trúnaðarmanna á landsvísu

Trúnaðarmenn skulu vera átta talsins og skiptast þeir milli landshluta með eftirfarandi hætti:

   1. Á þjónustusvæði Reykjavíkur og Seltjarnarness skulu starfa tveir trúnaðarmenn.
   2. Kópavogur, Garðabær, Álftanes, Mosfellsbær og Kjós skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.
   3. Hafnarfjörður og Suðurnes skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.
   4. Vesturland og Vestfirðir skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.
   5. Norðurland vestra, Akureyri og Norðurþing skulu hafa sameiginlegan trúnaðar­mann.
   6. Austurland og Hornafjörður skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.
   7. Vestmannaeyjar og Suðurland skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.

Skyldur trúnaðarmanna

Trúnaðarmenn skulu fylgjast með högum fatlaðs fólks og vera því innan handar við réttindagæslu hvers konar, hvort sem það er vegna meðferðar einkafjármuna þess, þjónustu sem það á rétt á eða varðandi önnur persónuleg réttindi eða einkamál þess.

Búi hinn fatlaði eintaklingur á heimili fyrir fatlað fólk skal forstöðumaður viðkomandi heimilis veita trúnaðarmanni þær upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar vegna starfs síns. Þegar um er að ræða upplýsingar sem varða persónuleg atriði eða upplýsingar um einkafjármuni hins fatlaða einstaklings skal leita eftir samþykki hans eða þess sem heimild hefur til þess að koma fram fyrir hans hönd.

Trúnaðarmaður skal vera sýnilegur í störfum sínum, halda reglulega fundi með fötluðu fólki á sínu svæði og standa fyrir fræðslu fyrir fatlaða einstaklinga og þá sem veita þeim þjónustu.

Reglugerðin í heild