Skip to main content
Frétt

Ný uppfærsla á neysluviðmiði

By 21. febrúar 2014No Comments

Dæmigert neysluviðmði einstakling á höfuðborgarsvæði er 234.564 krónur og hjóna með 2 börn 546.543. krónur. Ekki er gert ráð fyrir húsnæðiskostnaði inn í þessari tölu. Reiknivél neysluviðmiða hefur nú verið uppfærð í þriðja sinn á vef velferðaráðuneytisins. Uppfærslan er gerð á grunni vísitölu neysluvöruverðs. Allar nánari upplýsingar eru á vef ráðuneytisins.

Dæmigert viðmið fyrir útgjöld einstaklings sem býr á höfuðborgarsvæðinu er 234.564 kr., hækkunin er 2,1% milli ára. Dæmigert viðmið fyrir útgjöld hjóna með tvö börn sem búa á höfuðborgarsvæðinu er 546.543 kr. Þá er gert ráð fyrir að annað barnið sé á leikskóla en hitt í grunnskóla þar sem keyptar séu skólamáltíðir og frístundavistun. Hækkunin er 2,9% milli ára.

Grunnviðmið á að gefa vísbendingu um hver geti verið lágmarksútgjöld í ákveðnum útgjaldaflokkum. Við gerð þess var horft til útgjaldadreifingar í neyslukönnun Hagstofunnar. Í grunnviðmiði er ekki reiknaður kostnaður vegna húsnæðis og bifreiðar, en strætókort reiknað á hvern fjölskyldumeðlim. Samkvæmt þessu er grunnviðmið fyrir útgjöld einstaklings sem býr á höfuðborgarsvæðinu 99.758 kr., hækkun milli ára er 2,9%.

Grunnviðmið fyrir útgjöld hjóna með tvö börn sem búa á höfuðborgarsvæðinu er 332.430 kr., þá er gert ráð fyrir að annað barnið sé á leikskóla og hitt í grunnskóla þar sem keyptar eru skólamáltíðir og frístundavistun. Hækkunin er 3,3% milli ára.

Við gerð viðmiðanna var stuðst við rannsóknir Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna. Beitt var svonefndri útgjaldaaðferð þar sem byggt er á upplýsingum um raunveruleg útgjöld íslenskra fjölskyldna. Útgjöldin eru nú sundurliðuð í 12 útgjaldaflokka, í stað 15 útgjaldaflokka áður. Í hverjum útgjaldaflokki er tekið miðgildi útgjalda sem felur í sér að helmingur heimila er með jafnhá eða lægri útgjöld í viðkomandi útgjaldaflokki. Flokkarnir eru þessir: 1) Matur, drykkjarvörur og aðrar dagvörur til heimilishalds; 2) föt og skór; 3) heimilisbúnaður; 4) raftæki og viðhald raftækja; 5) lyf, lækningavörur og heilbrigðisþjónusta; 6) sími og fjarskipti; 7) menntun og dagvistun; 8) veitingar; 9) önnur þjónusta fyrir heimili; 10) tómstundir og afþreying; 11) ökutæki og almenningssamgöngur; 12) annar ferðakostnaður. Liðirnir húsaleiga/reiknuð húsaleiga; viðhaldskostnaður húsnæðis og rafmagn og hiti eru ekki inni í íslensku neysluviðmiði eftir uppfærslu þess í maí 2012.

Áhersla var lögð á að viðmiðin gæfu sem heildstæðasta mynd af útgjöldum fjölskyldna. Hjá nágrannaþjóðum okkar er algengt að húsnæðisútgjöld séu undanskilin við gerð neysluviðmiða með þeim rökum að sá kostnaður sé of breytilegur til þess að setja megi raunhæf viðmið og á hið sama við hér á landi. Greiðslur beinna skatta og opinberra gjalda eru ekki meðtaldar í neysluviðmiðunum.