Skip to main content
Frétt

Nýr vefur Tryggingamiðstöðvarinnar hlýtur vottun um aðgengi fyrir fatlaða

By 3. janúar 2006No Comments
Tryggingamiðstöðin hlaut í dag vottun frá fyrirtækinu Sjá ehf. og Öryrkjabandalagi Íslands um að nýr og gjörbreyttur vefur fyrirtækisins www.tryggingamidstodin.is sem tilnefndur var til Íslensku vefverðlaunanna, standist kröfur um aðgengi fyrir fatlaða.

Vefurinn fær bæði vottun fyrir forgang 1 og 2 og er TM fyrsta einkafyrirtæki á Íslandi til þess að fá slíka vottun. Er þetta í samræmi við það höfuðmarkmið TM að veita góða þjónustu á mannlegum nótum. Forgangur 1 er lágmarkskrafa um aðgengi fatlaðra að vef en til að fá forgang 2 þarf að uppfylla mun fleiri skilyrði. Dæmi um breytingar sem orðið hafa á vef TM eru að nú geta blindir og sjónskertir notað talgerfla og sérhönnuð lyklaborð með síðunni eða stækkað letrið. Lesblindir geta breytt um bakgrunnslit og hreyfihamlaðir geta vafrað án þess að nota músina. Til viðbótar þessu hafa verið settar inn útskýringar á allar myndir, tenglaheiti hafa verið gerð skýrari og stærð og tegund viðhengja kemur vel fram. Enn fremur hafa skammstafanir verið teknar út eða eru með útskýringu.

Arnþór Helgason, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands, sýnir hvernig hann notar talgervil á hinn nýja vef TM. Pétur Pétursson, framkvæmdastjóriEngar reglur eru í gildi hérlendis um aðgengi að heimasíðum en í nágrannalöndum okkar er komið í lög að heimasíður opinberra stofnana sem og flestra fyrirtækja eigi að vera aðgengilegar öllum notendum, óháð fötlun eða getu. Níu af hverjum tíu vefjum eru óaðgengilegir hluta manna og tíu til tólf prósent þjóðarinnar eiga við einhvers konar fötlun að stríða. Þessi hópur hefur jafnvel meiri not af heimasíðum en aðrir. Vottun vefráðgjafarfyrirtækisins Sjá byggist á gátlistanum WAI (Web Accessibility Initiative) sem er alþjóðlegur staðall fyrir aðgengi á Netinu. Sjá hefur í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands sniðið listann að íslenskum aðstæðum og hefur hann verið prófaður af notendum með margs konar fötlun. Aðeins Strætó bs. hefur fengið vottun 1 og 2 áður.

Frekari upplýsingar veita Elínborg Valdís Kvaran auglýsingastjóri TM í síma: 515 2162 og 821 6025 og Alda Sigurðardóttir hjá Sjá ehf. í síma: 511 3110 og 822 5888.