Skip to main content
Frétt

Nýtt frumvarp um kjör lífeyrisþega samþykkt á Alþingi 4. júlí

By 9. júlí 2013No Comments

Frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra sem varðar breytingar á almannatryggingalögunum, var samþykkt á Alþingi 4. júlí eftir  miklar umræður um málið.

Breytingarnar gilda frá og með 1. júlí en koma til framkvæmda 1. ágúst nk. Stjórnvöld hafa lýst því yfir að breytingarnar séu fyrsta skrefið í áformnum um að draga til baka þær skerðingar sem gerðar voru á kjörum lífeyrisþega árið 2009. Jafnframt er hafin vinna vegna undirbúnings að afnámi annarra skerðinga og á það m.a. við um lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar úr 45% í 38,35%. Frétt um málið á vef velferðarráðuneytisins.

Tengill á lögin í heild sinni

Tengill á umræður og feril málsins á vef Alþingis

Helstu lagabreytingar sem tóku gildi 1. júlí eru eftirfarandi:

  • Frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna hækkaði úr 40.000 kr. í 109.600 kr. á mánuði.
  • Lífeyrissjóðstekjur skerða ekki lengur grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega.

Aðeins hluti af skerðingum leiðréttur

Ofangreindar leiðréttingar eru jákvæðar fyrir þá sem fá leiðréttingar á sínum kjörum og er full ástæða til að fagna því. Hins vegar eru það mikil vonbrigði að einungis tvær af skerðingunum frá 1. júlí 2009 eru leiðréttar, sem greinilega eru valdar m.t.t. þess að þær kosta minnst fyrir ríkissjóð og ekki er gert ráð fyrir að þær gildi afturvirkt. Er það ekki í samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda og loforð stjórnarflokkanna sem gefin voru í aðdraganda kosninga.

Gagnast fámennum hópi öryrkja

Þessar breytingar nýtast ekki þeim öryrkjum sem eru með lágar tekjur því ekki er um að ræða hækkun á fjárhæðum einstakra bótaflokka heldur minni tekjutengingar hjá þeim sem eru með aðrar tekjur en bætur almannatrygginga. Hækkun á frítekjumarki á launatekjum varðar eingöngu ellilífeyrisþega og afnám skerðinga á grunnlífeyri vegna lífeyrissjóðstekna nær einungis til fámenns hóps öryrkja sem eru með lífeyristekjur yfir 214.602 kr. á mánuði. Sú forgangsröðun vekur furðu að leiðréttingar á kjörum sem byrjað er á ná ekki til þeirra sem þurfa að framfleyta sér á lágum bótum og hafa litlar eða engar aðrar tekjur.

Frítekjumark á atvinnutekjum örorkulífeyrisþega framlengt

Bráðabirgðaákvæði laganna um frítekjumark á atvinnutekjum öryrkja var framlengt til ársloka 2014 sem er jákvætt. Þó er vert að minnast á að þeir öryrkjar sem eru með lægstu bæturnar og fá bótaflokkinn sérstök framfærsluuppbót eru ekki með frítekjumark á þeim bótaflokki. Hann skerðist krónu á móti krónu vegna annarra skattskyldna tekna þar til hann fellur niður og þá fyrst kemur frítekjumarkið að notum. Þessi skerðingaráhrif festa fólk í fátæktargildru sem þarf að breyta.

Eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar

Við umfjöllun velferðarnefndar um frumvarpið var ákveðið að fella brott ákvæði um auknar eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar ríkisins og rýmri aðgang að upplýsingum við ákvörðun bóta og því ber að fagna. Markmið þess var að bæta útreikninga á greiðslum til lífeyrisþega og draga úr bótasvikum. Það er mat velferðarnefndar Alþingis að vinna við ný ákvæði um eftirlitsheimildir þurfi meiri tíma og því er beint til velferðarráðuneytisins að málið verði endurskoðað.

Tenglar með frétt:

Nýsamþykkt lög um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.(frítekjumörk og tekjutengingar).  Samþykkt á Alþingi 4. júlí 2013. 

Umræður og ferill máls á vef Alþingis um frumvarp til laga um almannatryggingar og málefni aldraðra (frítekjumörk, tekjutengingar) 25. mál

Umsögn ÖBÍ við frumvarp um almannatryggingar (frítekjumörk, tekjutengingar og eftirlitsheimildir) dags. 1. júlí 2013 á heimasíðu ÖBÍ.

Erindi og umsagnir á vef Alþingis í 25. máli um almannatryggingar og málefni aldraðra.

Frétt um málið á heimasíðu velferðarráðuneytisins 5. júli 2013: Frumvarp um bætt lífeyrisréttindi samþykkt Alþingi

Frumvarp um bætt lífeyrisréttindi samþykkt Alþingi.

Greinar um málið:

Efndir nýrrar stjórnar: Grein Guðmundar Magnússonar formanns ÖBÍ í vefriti ÖBÍ 2. júlí 2013 

Loforð stjórnvalda: Grein Lilju Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóra ÖBÍ í Morgunblaðinu 2. júli 2013

Loforð og efndir: Grein Þorberu fjölnisdóttur ráðgjafa hjá ÖBÍ í Fréttablaðinu 3. júlí 2013