Skip to main content
Frétt

ÖBÍ fer fram á tafarlausa úttekt á aðgengi í Grímseyjarferju.

By 16. ágúst 2007No Comments

ÖBÍ sendi í gær bréf til samgönguráðherra, vegamálastjóra og siglingamálastjóra þar sem gerð er krafa um að tryggt verði aðgengi og öryggi fyrir alla í nýrri Grímseyjarferju. Þar segir orðrétt:

Komið hefur fram að undanförnu að margt hafi misfarist við breytingar á nýrri Grímseyjarferju og skipið hafi verið í mun verra ástandi en ætlað var í fyrstu. Í sjónvarpsviðtali við núverandi samgönguráðherra skömmu fyrir kosningar til Alþingis kom fram að aðgengi fyrir fatlaða væri slæmt í hinni nýju ferju. Ekki hefur verið leitað til ÖBÍ eða ferlinefndar bandalagsins um aðgengisúttekt á skipinu og bandalagið hefur engar upplýsingar fengið um aðgengismál ferjunnar.

Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/24 er aðildarríkjum EES gert að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja hreyfihömluðum greiðan aðgang að tilteknum farþegaskipum sem veita þjónustu innanlands í aðildarríkjunum. Tilskipunin var innleidd á Íslandi með reglugerð nr. 423/2005 og skal Siglingastofnun gera aðgerðaáætlun um hvernig beita eigi viðmiðunarreglum um öryggiskröfur fyrir farþegaskip. Hreyfihamlaðir einstaklingar eru, í skilningi reglugerðarinnar, þeir sem eiga í sérstökum erfiðleikum með að nota almenningssamgöngur, þ.m.t. aldraðir, fatlaðir, fólk með skerta skynjun og fólk sem notar hjólastól, þungaðar konur og fólk með lítil börn.

ÖBÍ fer hér með fram á að tafarlaus úttekt verði gerð á aðgengi um borð og að haft verði samráð við ÖBÍ, sem heildarsamtök fatlaðra á Íslandi, um nauðsynlegar endurbætur í því skyni að tryggja gott aðgengi og öryggi fyrir alla í nýrri Grímseyjarferju.