Skip to main content
Frétt

ÖBÍ gagnrýnir frumvarp ráðherra

By 2. júlí 2013No Comments

Fulltrúar Öryrkjabandalags Íslands funduðu að nýju með velferðarnefnd Alþingis 1. júlí, um frumvarp félagsmála- og húsnæðisráðherra og lögðu fram umsögn um málið.

Á fundinum var meðal annars bent á að frumvarp ráðherra tæki eingöngu til tveggja af sex kjarskerðingarákvæðum sem komu til framkvæmda 1. júlí 2009 önnur til  frítekjumarks á atvinnutekjur ellilífeyrisþega og hin til skerðinga lífeyristekna á grunnlífeyri almannatrygginga.

Skerðingar lífeyristekna á grunnlífeyri

Í umsögninni er fagnað þeim áfanga að grunnlífeyrir verði ekki skertur vegna lífeyrisgreiðslna. ÖBÍ bendir á að verði frumvarpið að lögum mun mjög lítill hluti öryrkja hækka í greiðslum frá 1. júlí 2013. Rúmlega helmingur öryrkja fær engar greiðslur úr lífeyrissjóði og fáir örorkulífeyrisþegar eru með lífeyrissjóðstekjur, en skerðingarákvæði lífeyrissjóðstekna hafa ekki áhrif á gunnlífeyri fyrr en við krónur 214.602. Mikill munur er á stöðu örorku- og ellilífeyrisþega hvað þetta varðar.

Harma að eingöngu 2 af 6 kjaraskerðingum verði væntanlega leiðréttar

ÖBÍ harmar að einungis eigi að leiðrétta tvær af þeim sex kjaraskerðingum sem komu til framkvæmda 1. júlí 2009 og að þær gildi ekki afturvirkt. Minnt er á að núverandi stjórnarflokkar lofuðu í aðdraganda kosninga að allar skerðingar yrðu afturkallaðar frá 1. júlí 2009. Samkvæmt frumvarpinu ætla stjórnvöld ekki að standa við gefin loforð nema að hluta til. Ennfremur vantar áætlun stjórnvalda um það hvenær og hvernig aðrar skerðingar almannatrygginga verði leiðréttar. Þá kemur ekki fram hvenær og hvernig kjaragliðnun frá 2009 verði leiðrétt. Minnt er á að 69. gr. laga um almannatryggingar, sem segir til um hvernig bætur skuli hækka, var tekin úr sambandi 1. janúar 2009 og hefur ekki enn komið til framkvæmda.

ÖBÍ gagnrýnir tillögur um nýjar eftirlitsheimildir TR sem stenst ekki stjórnarskrá

Í umsögn ÖBÍ er einnig fjallað um tillögu um eftirlitsheimilidir TR sem lagðar eru til í frumvarpinu og segir í umsögn ÖBÍ:

 „Í 2. mgr. er áætlunin að bæta við ákvæði um að heimilt sé, þegar rökstuddur grunur leikur á því að bótaréttur sé ekki fyrir hendi, að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar. Þessi regla er verulega íþyngjandi fyrir lífeyrisþega og færir TR allt of mikið vald til þess að grípa inn í lífsviðurværi fólks með alvarlegum hætti. ÖBÍ leggst eindregið gegn þessari reglu og krefst þess að hún verði tekin úr frumvarpinu.“

Þá telur ÖBÍ regluna vera í andstöðu við 76. gr. stjórnarskrárinnar og meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar.

Ekkert samráð við hagsmunasamtök við gerð frumvarpsins

Eina samráðið sem haft var við gerð frumvarps þessa er samráð við Tryggingastofnun ríkisins. Ekki var haft samráð við hagsmunasamtök þeirra sem frumvarpið tekur til og er það mjög gagnrýnivert.

Tengill á umsögn ÖBÍ