Skip to main content
DómsmálFrétt

ÖBÍ greiðir málskostnaðartryggingu í máli Jakubs

ÖBÍ réttindasamtök lýsa megnri óánægju og hneykslan með ákvörðun Hæstaréttar um að hafna kæruleyfisumsókn Jakubs Polkowski sem og að honum sé gert að reiða fram 1,1 milljón króna til félagsins Sæstjörnunnar ehf. til þess eins að fá að halda áfram dómsmáli sem Jakub hefur höfðað gegn félaginu, Reykjanesbæ og íslenska ríkinu. Félagið Sæstjarnan ehf. keypti heimili Jakubs á 3 milljónir króna á nauðungaruppboði en félagið seldi húsnæðið nýlega aftur fyrir 78 milljónir króna.

Málið allt er sorglegt dæmi um það hvernig íslenskt réttarkerfi gerir ekki ráð fyrir fötluðu fólki, gætir ekki að hagsmunum þess og veitir ekkert svigrúm til þess að fatlað fólk geti fengið úrlausn um réttindi sín. Málið sýnir fram á mikilvægi þess að lögfesta Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks svo að fatlað fólk eigi raunhæfa möguleika á þátttöku í íslensku samfélagi til jafns við aðra.

ÖBÍ réttindasamtök munu greiða málskostnaðartrygginguna fyrir hönd Jakubs. ÖBÍ styður málsókn Jakubs heils hugar.