Skip to main content
Frétt

ÖBÍ mótmælir kröftuglega fyrirhuguðum skerðingum

By 10. júní 2010No Comments
Framkvæmdastjórn Öryrkjabandalags Íslands ályktar eftirfarandi…

Ályktun ÖBÍ 10. júní 2010

Framkvæmdastjórn Öryrkjabandalags Íslands mótmælir kröftuglega fyrirhuguðum skerðingum á þjónustu við fatlaða og lífsafkomu öryrkja.

Lífeyrisþegar voru þeir sem fyrstir fengu skellinn við upphaf bankakreppunnar. Með aftengingu laga sem áttu að tryggja lífeyri samkvæmt launa- eða neyslu-vísitölu varð meirihluti lífeyrisþega fyrir um 10% skerðingum á lífeyri 1. janúar 2009.

Stór skellur kom svo 1. júlí sama ár þegar tekjutengingar almannatrygginga jukust og komu fyrr og harkalegar en áður, en ráðherra lýsti yfir að „betra væri að fá stóran skell í upphafi og vera síðan frír næstu þrjú ár“. Þrátt fyrir það hefur síðastliðið ár markast af stöðugum hækkunum á lyfja- og lækniskostnaði og aukinni greiðsluþátttöku í sjúkra-, iðju- og talþjálfun auk hjálpartækja.

Þann 1. janúar síðastliðinn voru lífeyrisgreiðslur frystar út árið 2010 og enn jókst greiðsluþátttaka sjúklinga og öryrkja í heilbrigðiskerfinu. Þá hafa lífeyrissjóðirnir skert sínar greiðslur gagnvart öryrkjum á undanförnum árum sem hefur skert framfærslu þeirra harkalega og hefur einnig haft aukinn kostnað ríkisins í för með sér.

Öryrkjabandalagið býður ríkisstjórninni leiðsögn í að forgangsraða við fjárlagagerð næsta árs með jafnrétti og mannréttindi að leiðarljósi og komast þannig hjá frekari skerðingum í velferðarkerfinu.