Skip to main content
Frétt

ÖBÍ óskar upplýsinga um lækkun og niðurfellingu á greiðslum frá lífeyrissjóðum.

By 1. ágúst 2006No Comments
Mikið hefur verið hringt til ÖBÍ vegna bréfa sem um 20% örorkulífeyrisþega hafa fengið inn um bréfalúgu sína í gær eða dag.

Um er að ræða bréf frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og er yfirskrift bréfanna annað hvort “Tilkynning um lækkun lífeyris” eða “Tilkynning um niðurfellingu lífeyris”.

Samkvæmt upplýsingum sem ÖBÍ hefur aflað frá Greiðslustofu lífeyrissjóða eru það um 2.300 einstaklingar sem eru að fá þessi bréf þar af 1.200 sem fá algjöra niðurfellingu lífeyrisgreiðslna. Það eru því ríflega 20% öryrkja á landinu sem fyrir þessu verða frá 1. nóvember næst komandi. Byggt er á athugun innan 14 lífeyrissjóða á heildartekjum lífeyrisþegans árið 2005 á móti viðmiðunartekjum örorkulífeyrisþegans 3 tekjuár fyrir örorku. Framreikningur vegna tekjuáranna miðast við neysluvísitölu.

Upplýsingar óskast!
ÖBÍ mun í næstu viku funda með fulltrúum lífeyrissjóðanna en ekki hefur fengist uppgefið um hvaða tekjuhópa er að ræða. Öryrkjar sem telja að verið sé að brjóta á sér er bent á að hafa samband við ÖBÍ. Æskilegt er að viðkomandi sendi tölvupóst á póstfangið bara@obi.is eða bréf með upplýsingum um stöðuna, símanúmer og heimilisfang. Einnig er tekið við athugasemdum með símpósti í 530 6701 en vegna sumarleyfa er símaþjónusta bandalagsins takmörkuð næstu daga.

Það skal ítrekað að öryrkjar hafa þrjá mánuði til stefnu að gera athugasemdir við Greiðslustofu lífeyrissjóða en löngu áður en sá tími er liðinn eiga mál að skýrast.