Skip to main content
Frétt

ÖBÍ skilar umsögn og mótmælir

By 25. júní 2009No Comments
Öryrkjabandalag Íslands skilaði umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum inn á nefndasvið Alþingis í gær.

Þar er mótmælt þeim skerðingum sem gert er ráð fyrir að öryrkjar- og ellilífeyrisþegar taki á sig í þeim niðurskurði í ríkisútgjöldum sem nú er unnið að hjá stjórnvöldum. Ef allt sem er tilgreint í frumvarpinu fer í gegnum þingið mun t.d. skerðingarprósenta tekna á tekjutryggingu hækka úr 38,35% í 45%. Lífeyrissjóðstekjur fara að skerða “grunnlífeyri” og aldurstengda uppbót.

Í þeim breytingum sem stefnt er að gera á bótum almannatrygginga hefst skerðingin strax við tæpar kr. 160.000 á mánuði fyrir þá öryrkja sem búa með öðrum. Og fyrir þá sem búa einir hefst skerðingin við rúmar 180.000 krónur.

Í dæmum sem starfsfólk ÖBÍ hefur reiknað út geta skerðingarnar lífeyristekna í prósentum talið á greiðslum almannatrygginga orðið á bilinu 0,1 – 76%. Þegar heildartekjur öryrkja eru teknar saman, þ.e. bætur almannatrygginga og greiðslur úr lífeyrissjóði, eru skerðingarnar á bilinu 0,1 – 7,7%.

Væntanlegar skerðingar á bótum valda miklum vonbrigðum sérstaklega þegar haft er í huga að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún muni verja kjör þeirra sem verst eru settir og tekið hefur verið sérstaklega fram að ekki skuli skerða heildarlaun sem eru lægri en 400.000 kr. á mánuði.

Umsögn ÖBÍ ásamt dæmum um skerðingar.