Skip to main content
Frétt

ÖBÍ tekur undir gagnrýni Ríkisendurskoðunar

By 2. september 2010No Comments
Sjá ályktun framkvæmdastjórnar ÖBÍ frá í dag, vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða.

Ályktun framkvæmdastjórnar Öryrkjabandalags Íslands
2. september 2010, vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar
um þjónustu við fatlaða.

Öryrkjabandalag Íslands tekur undir gagnrýni Ríkisendurskoðunar (ágúst 2010) um að framkvæmd og skipulagi á þjónustu við fatlaða sé í mörgu ábótavant. Það styður við ályktun bandalagsins frá í vor um mikilvægi þess að allt lagaumhverfi sé tryggt svo yfirfærslan geti farið fram svo sómi sé að.

Samkvæmt niðurstöðum Ríkisendurskoðunar í 5 liðum er skortur á heildarstefnu, ekki er gert ráð fyrir fjárveitingum í samræmi við mat á þjónustuþörf, ónógt eftirlit með þjónustuaðilum og ekki hægt að fullyrða að jafnræði ríki meðal þjónustuþega, meginþættir í starfsemi þjónustuaðila fylgja ekki samræmdum verklagsreglum og því misjöfn gæði þjónustunnar auk þess sem óljóst er með hvaða hætti þjónustusamningar einstakra sveitarfélaga við ríkið hafi verið uppfylltir, þar að auki er kostnaður ekki bókfærður með sama hætti hjá öllum þjónustuaðilum.

Ljóst er að málaflokkurinn er í algjörum ólestri. Það er ekki hægt að meta þjónustuna, hvort hún sé skilvirk, árangursrík eða í samræmi við lög. Þar af leiðir að ekki er ljóst hvort hagkvæmara er að ríki eða sveitafélögin veiti þjónustuna.

Að ætla sér að nota SIS-matið á þann hátt sem gert er ráð fyrir er skýrt dæmi um þau handabakavinnubrögð sem hér koma fram.

Framkvæmdastjórn ÖBÍ gerir þá kröfu að þessu verði komið í lag áður en ráðist verði í sjálfa yfirfærsluna!