Skip to main content
Frétt

Ofbeldi gegn fötluðum konum

By 18. mars 2015No Comments

Bæklingurinn Ofbeldi gegn fötluðum konum sem var unninn í tengslum við rannsóknina Ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra að stuðningsúrræðum er nú kominn út.

Í bæklingnum er stutt samantekt um niðurstöður rannsóknarinnar og upplýsingar um hvert fatlaðar konur geta leitað ef þær verða fyrir ofbeldi.

Um rannsóknina

Rannsóknin var unnin af Rannsóknasetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands í samstarfi við rannsóknastofnanir og háskóla í Austurríki, Þýskalandi og Bretlandi. Rannsóknin var styrkt af Daphne III áætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Rannsóknin var tvíþætt og náði bæði til fatlaðra kvenna og til fólks sem hefur starfað með þolendum ofbeldis. 

Í rannsókninni voru tekin viðtöl við fatlaðar konur sem höfðu orðið fyrir ofbeldi. Einnig komu fatlaðar konur saman í rýnihópum og ræddu ofbeldi gegn fötluðum konum.Að auki var gerð símakönnun og tekin viðtöl við ráðgjafa sem starfa hjá félagasamtökum sem veita þolendum ofbeldis stuðning og fólk sem hefur reynslu af því að aðstoða fatlaðar konur sem hafa verið beittar ofbeldi. 

Niðurstöður rannsóknarinnar

Niðurstöður sýna að ofbeldi gegn fötluðum konum er algengt vandamál í öllum þeim fjórum Evrópulöndum sem tóku þátt í verkefninu, líka á Íslandi. Konurnar sem tóku þátt í rannsókninni höfðu orðið fyrir margs konar ofbeldi, svo sem kynferðislegu, andlegu og þjónustutengdu ofbeldi. Ofbeldið var oft þaggað niður og falið og konurnar fengu sjaldan stuðning til að takast á við afleiðingar þess. Þær töldu fólk yfirleitt ekki gera sér grein fyrir því hve algengt og alvarlegt ofbeldi gegn fötluðum konum er. Fáar kvennanna fengu aðstoð við að kæra eða stuðning til að fylgja málum sínum eftir. Þær bentu á að þegar fatlaðar konur segðu frá ofbeldi, væri þeim oft ekki trúað. 
Allar konurnar sem tóku þátt í rannsókninni höfðu einhvern tíma á lífsleiðinni orðið fyrir fordómum. Margar höfðu einnig mátt þola valdbeitingu eða stjórnsemi og að það væri ekki hlustað á þær. Sumar höfðu verið neyddartil þess að gera hluti sem þær kærðu sig ekki um. 
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna einnig að ofbeldi gegn fötluðum konum er nátengt félagslegri stöðu þeirra og valdaleysi. Fatlaðar konur sem þurfa að reiða sig á stuðning annarra eru gjarnan í aðstæðum sem einkennast af valdaójafnvægi. Þá getur verið erfitt fyrir þær að segjafrá ofbeldinu eða sækja sér hjálp, þar sem gerandinn kann að vera manneskja sem þær þurfa að reiða sig á aðstoð frá. Til að koma í veg fyrir ofbeldi er mikilvægt að styrkja stöðu fatlaðra kvenna og stuðla að valdeflingu þeirra.
Bæklingurinn er einnig aðgengilegur á auðskildu máli, á táknmáli og á hljóðskrá. Hægt er að finna bæklinginn á þessu formi á vef Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum.