Skip to main content
Frétt

Ofbeldi gegn fötluðum konum

By 31. maí 2013No Comments

Rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands veitir mikilvæga innsýn í margbreytilegar birtingarmyndir ofbeldis gegn fötluðum konum.

Niðurstöður nýrrar eigindlegrar rannsóknar á ofbeldi gegn fötluðum konum sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið veita mikilvæga innsýn í margbreytilegar birtingarmyndir ofbeldis gegn fötluðum konum, við hvers konar aðstæður það á sér stað og afleiðingarnar sem það hefur. Rannsóknin var hluti af verkefni sem tilheyrði þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum.

Í niðurstöðunum kemur meðal annars fram að rannsóknin hafi náði til 13 fatlaðra kvenna sem höfðu reynslu af ofbeldi. Flestar konurnar áttu langa sögu af undirokun og ofbeldi. Ofbeldið var margháttað, allt frá einelti í æsku til kynferðislegs ofbeldis af hendi maka eða starfsfólks á heimilum fatlaðs fólks.

  • Allar konurnar höfðu upplifað ofbeldi í barnæsku af einhverjum toga. Auk þeirra kvenna sem höfðu orðið fyrir einelti höfðu fjórar konur orðið fyrir miklu andlegu- líkamlegu- og kynferðislegu ofbeldi á æskuheimilinu og fimm fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi einhvers sem stóð utan við fjölskylduna.
  • Konurnar, sem höfðu verið beittar ofbeldi á æskuheimilinu, fengu lítinn stuðning frá nærumhverfinu við að reyna að brjótast út úr þeim aðstæðum sem þær voru í. Konurnar lýstu því hvernig afskiptasemi fjölskyldu kom í veg fyrir að þær réðu eigin lífi.
  • Nokkrar þeirra kvenna sem höfðu búið á sambýlum og í sjálfstæðri búsetu með stuðningi lýstu því að hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi sambýlisfólks eða starfsfólks stofnananna.
  • Nokkrar kvennanna höfðu verið sendar í fóstur sem börn. Þær lýstu erfiðleikum í samskiptum við fósturforeldrana sem bendir til þess að því hafi fylgt álag að mynda tilfinningaleg tengsl við nýja foreldra.
  • Fimm konur deildu reynslu sinni af því að verða fyrir ofbeldi af hendi eiginmanns eða kærasta. Fram komu lýsingar á andlegu, fjárhagslegu, kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi.

Á heimasíðu Velferðaráðuneytisins er vitnað í Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem segir að margt sé hægt að læra af niðurstöðum rannsóknarinnar og reynslu kvennanna sem þar er lýst: „Margar erlendar rannsóknir hafa sýnt að hættan á því að konur séu beittar ofbeldi eykst verulega ef þær búa við fötlun. Þetta verður að hafa hugfast í öllu tilliti og meðal annars við skipulag þjónustu við fatlað fólk og eftirlit með henni.“

Tengill á skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Ofbeldi gegn fötluðum konum.

Tengill á visir.is umfjöllun um skýrsluna