Skip to main content
Frétt

Öryrki stefnir lífeyrissjóðnum Gildi 

By 2. maí 2013No Comments

vegna ólögmætrar skerðingar á lífeyrisgreiðslum

Margrét Ingibjörg Marelsdóttir, öryrki, hefur stefnt Gildi lífeyrissjóði fyrir ólögmæta skerðingu á lífeyrisgreiðslum til hennar. Hún telur skerðingu sjóðsins í andstöðu við lög og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar auk þess að brjóta í bága við reglur og yfirlýsingar sjóðsins. Margrét krefst þess að Gildi lífeyrissjóður endurgreiði þá fjármuni sem sjóðurinn hefur haft af henni með ólögmætum hætti.Merki Gildi lífeyrissjóðs

Margrét hóf störf á vinnumarkaði árið 1962 en varð algerlega óvinnufær 1981 eftir misheppnaðar læknisaðgerðir. Frá árinu 1982 hefur hún verið metin með hámarksörorku, bæði af Tryggingastofnun ríkisins og Gildi lífeyrissjóði. Hún hefur ekki haft launatekjur síðan enda með öllu óvinnufær. Margrét hefur aðeins haft framfærslu af örorkulífeyri frá Gildi lífeyrissjóði og af greiðslum almannatrygginga.

Hún fékk greiddan fullan örorkulífeyri frá Gildi, allt frá árinu 1982 fram til 1. nóvember 2007 en þá hóf sjóðurinn að skerða lífeyri Margrétar vegna greiðslna úr almannatryggingum. Sjóðurinn hefur ekki einungis skert lífeyrinn vegna örorkulífeyris og tekjutryggingar frá almannatryggingum heldur hefur Gildi einnig skert greiðslur vegna uppbóta sem Margrét fær greiddar á grundvelli laga um félagslega aðstoð.

Lífeyrissjóðurinn skerðir framfærslugreiðslur Margrétar m.a. vegna uppbótar sem hún fær vegna þess að hún þarf á sérstakri bifreið að halda vegna hreyfihömlunar. Þá skerðir Gildi greiðslur til Margrétar vegna uppbótar sem hún fær til að mæta lyfjaútgjöldum. Með þessum breytingunum eignar lífeyrissjóðurinn sér bætur Margrétar frá almannatryggingum þannig að hún nýtur ekki raunverulega góðs af þeim.

Margrét telur þessa skerðingu ólögmæta enda eigi örorkulífeyrir Gildis að bæta þann launamissi sem örorka hefur í för með sér. Uppbótargreiðslur á grundvelli laga um félagslega aðstoð eru af allt öðrum toga. Þær eru ekki ígildi launa eða bætur fyrir missi launa. Uppbætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eru til þess að koma til móts við sérstök útgjöld á grundvelli sérstakra aðstæðna.  Margrét krefst þess að lífeyrissjóðurinn Gildi greiði henni 1.330.028 krónur vegna vangoldinna greiðslna frá árinu 2007 og hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að fá rétt sinn viðurkenndan.  Öryrkjabandalagið styður Margréti í þessum málarekstri.