Skip to main content
Frétt

Öryrki stefnir Tryggingastofnun vegna vangoldinna bóta

By 27. febrúar 2013No Comments
Hrafnhildur Guðfinna Thoroddsen hefur
stefnt Tryggingastofnun ríkisins vegna vangoldinna
örorkubóta og nýtur hún stuðnings Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) í þessum
málarekstri.

Hrafnhildur krefst þess að viðurkennt verði að Tryggingstofnun sé óheimilt að skerða bætur hennar vegna fjármagnstekna af skaðabótum sem henni voru greiddar í kjölfar slyss sem hún varð fyrir árið 1989. Hún krefst þess að Tryggingastofnun ríkisins greiði henni liðlega 2.5 milljónir króna sem er sú skerðing sem bætur Hrafnhildar hafa orðið fyrir vegna tengingar við fjármagnstekjur á árunum 2009 til 2012.

Hrafnhildur var 16 ára gömul þegar hún lenti í alvarlegu umferðarslysi í júní 1989 og reyndust langtíma afleiðingar slyssins meðal annars þær að Hrafnhildur hefur frá slysdegi, verið lömuð neðan mittis og þurft að nota hjólastól. Varanleg örorka Hrafnhildar vegna slyssins var metin 100% og hefur hún verið óvinnufær síðan.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í janúar 1996, voru Hrafnhildi dæmdar bætur vegna slyssins. Við ákvörðun bótanna var litið til þess að bæturnar væru greiddar í einu lagi og því gæti Hrafnhildur ávaxtað fjárhæðina. Þetta eingreiðsluhagræði leiddi til þess að bætur tryggingafélagsins voru lækkaðar.  Við ákvörðun skaðabótanna gerði dómurinn einnig ráð fyrir að Hrafnhildur fengi fullar örorkubætur út ævina og taldi því að lækka ætti bætur til hennar sem næmi verðmæti þess örorkulífeyris og tekjutryggingar sem hún myndi fá greiddar til allrar framtíðar. Vegna þessa voru skaðabætur frá tryggingafélaginu því lækkaðar um tæp 40%.

 

Tryggingastofnun hefur metið Hrafnhildi með hámarks örorku og hafa henni verið ákvarðaðar örorkubætur frá Tryggingastofnun allt frá árinu 1989. Þegar bætur almannatrygginga voru ákvarðaðar í upphafi voru þær ekki skertar vegna fjármagnstekna.  Með seinni tíma lagabreytingum hefur aftur á móti verið bætt við reglum um að líta skuli til fjármagnstekna við útreikning bóta og hafa bætur Hrafnhildar verið skertar í samræmi við það. Skaðabætur Hrafnhildar vegna slyssins hafa þannig verið skertar tvívegis. Fyrst þegar skaðabæturnar voru lækkaðar vegna væntanlegra örorkubóta frá Tryggingastofnun. Síðan hefur Tryggingastofnun einnig skert örorkubæturnar vegna vaxtatekna af upphaflegu skaðabótagreiðslunni.

Hrafnhildur telur að með þessu hafi verið brotið gegn rétti hennar sem er verndaður af 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. gr. samnings­viðauka nr. 1 við Mannréttinda­sáttmála Evrópu. Þegar Héraðsdómur Reykjavíkur ákvarðaði bætur Hrafnhildar myndaðist eign hjá henni og fólust eignarréttindi hennar m.a. í því að forsendur skaðabótauppgjörsins myndu haldast óbreyttar.

Örorkubætur almannatrygginga til Hrafnhildar voru reiknaðar á grundvelli sömu meginforsendna frá ákvörðun þeirra árið 1989 og fékk hún greitt í mörg ár samkvæmt tilteknu fyrir­komulagi. Hrafnhildur telur að Tryggingastofnun sé óheimilt að breyta reglum eða stjórnsýsluframkvæmd þannig að örorkubætur almannatrygginga til hennar skerðist, enda hafa aðstæður hennar ekki breyst frá því að bæturnar voru ákvarðaðar.

Þessar breytingar hafa leitt til þess að bætur til Hrafnhildar hafa verið skertar verulega og hefur það haft í för með sér mikla tekjuskerðingu fyrir hana. Við þetta vill hún ekki una og leitar því réttar síns fyrir dómstólum.