Skip to main content
Frétt

Öryrkjabandalag Íslands krefst þess að lífeyrissjóðirnir hverfi frá boðuðum aðgerðum gegn öryrkjum

By 11. ágúst 2006No Comments
Á fundi forsvarsmanna Greiðslustofu lífeyrissjóðanna með forystu Öryrkjabandalags Íslands í morgun kom fram að hvorki Greiðslustofa né Landssamband lífeyrissjóða hafa samningsumboð gagnvart ÖBÍ vegna niðurfellinga og skerðinga lífeyrisgreiðslna sem koma eiga til framkvæmda þann 1. nóvember nk.

Því hefur ÖBÍ nú hraðsent stjórnum þeirra fjórtán lífeyrissjóða sem hlut eiga að máli eftirfarandi erindi:

ÖBÍ fer fram á að fallið verði frá þeirri ákvörðun lífeyrissjóða að skerða eða fella niður lífeyrisgreiðslur til öryrkja, sbr. bréf Greiðslustofu lífeyrissjóða dagsett 28. júlí sl. og koma á til framkvæmda þann 1. nóvember nk.
Að öðrum kosti verði framkvæmdinni frestað um óákveðinn tíma á meðan eðlilegur tími gefst til að skoða þau álitamál sem uppi eru og til aðlögunar að mögulegri tekjubreytingu.

Hér er um gríðarlega hagsmuni öryrkja að ræða og alvarlega skerðingu á afkomu þeirra komi þessi ákvörðun til framkvæmda. Í ljósi þessa og þess stutta tíma sem er til stefnu er þess farið á leit að afstaða stjórnar til kröfu ÖBÍ liggi fyrir eigi síðar en fimmtudaginn 17. ágúst nk.

ÖBÍ hafa borist svör við hluta þeirra spurninga sem sendar voru Greiðslustofu lífeyrissjóða vegna boðaðra aðgerða gegn öryrkjum. Þar kemur m.a. fram að lífeyrissjóðstekjur 745 öryrkja sem eru með lægri heildartekjur en 1.000.000- króna árið 2005 falli að fullu niður. Einnig má sjá að 1761 eða yfirgnæfandi meirihluti þeirra u.þ.b. 2300 öryrkja sem ætlað er að lækki í greiðslum eða hljóti niðurfellingu eru með undir 1.500.000- krónur í heildartekjur á síðasta ári. Jafnframt kemur fram að 906 manns á lista Greiðslustofu lífeyrissjóðanna eru með undir einni milljón króna í heildartekjur á árinu og sem ástæða þykir til að skerða eða fella með öllu niður lífeyrissjóðsgreiðslur þeim til handa.