Skip to main content
Frétt

Öryrkjabandalag Íslands og Mannvirkjastofnun stuðla að meiri sátt um byggingarreglugerð

By 18. október 2013No Comments

Í dag undirrituðu Guðmundur Magnússon formaður Öryrkjabandalagsins og Björn Karlsson forstjóri Mannvirkjastofnunar viljayfirlýsingu um aukið samstarf.

Samstarf OBI og MannvirkjastofnunarUndanfarið hafa fulltrúar Öryrkjabandalagsins og Mannvirkjastofnunar ásamt fleiri hagsmunaaðilum og fagfélögum, unnið að tillögum að breytingum á byggingarreglugerð nr. 112/2012 með það að markmiði að auka sveigjanleika hennar, lagfæra helstu vankanta og skapa meiri sátt um reglugerðina. Í dag undirrituðu Guðmundur Magnússon formaður Öryrkjabandalagsins og Björn Karlsson forstjóri Mannvirkjastofnunar yfirlýsingu þar sem lýst er vilja til að auka samstarf á þessu sviði enn frekar.

Í yfirlýsingunni er lýst vilja til að halda áfram samstarfi um breytingar sem stuðli að aukinni sátt um reglugerðina auk þess sem litið verði til þróunar regluverks byggingariðnaðarins til lengri tíma með hliðsjón af algildri hönnun.  Til að efla þverfaglega umræðu um málefni byggingariðnaðarins áforma ÖBÍ og Mannvirkjastofnun aukið samstarf með málþingum og ráðstefnuhaldi um byggingamál. Þá verður aukið samráð og samstarf við ÖBÍ um þróun á þeim leiðbeiningablöðum Mannvirkjastofnunar sem tengjast byggingarreglugerð.

Í viljayfirlýsingunni er hvatt til frekari byggingarannsókna á Íslandi og til stuðnings við meistaraverkefni á því sviði við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Aðilar munu útbúa lista yfir verkefni sem gætu orðið til bóta við þróun regluverks fyrir byggingariðnaðinn auk þess sem lýst er vilja til að stuðla að gerð námsefnis um algilda hönnun fyrir nemendur í öllum greinum byggingariðnaðarins á framhalds- eða háskólastigi.