Skip to main content
Frétt

Öryrkjabandalagið segir TR gera lítið úr áliti umboðsmanns Alþingis

By 2. október 2014No Comments

ÖBÍ lýsir yfir miklum vonbrigðum með viðbrögð TR vegna niðurstaðna álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7851/2014

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær segir umboðsmaður Alþingis að Tryggingastofnun hafi án lagastoðar sett tiltekin skilyrði fyrir örorkubótum aftur í tímann. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi síðan tekið undir með Tryggingastofnun og brotið á þroskaskertri konu með því að draga í efa að fötlun hennar væri meðfædd án þess að gefa henni færi á að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. Hún vildi fá örorkubætur tvö ár aftur í tímann eins og heimilt er samkvæmt lögum. 
 

Mynd af húsi TRJátar mistök en telur þau ekki skipta máli

Tryggingastofnun játar að hafa beitt kröfu um „sérstakar aðstæður“ við greiðslu örorkubóta aftur í tímann án þess að fyrir henni væri lagastoð. TR hefur ekki frumkvæði að leiðréttingu en segir þá sem telja á sér brotið geta óskað endurupptöku. Í tilkynningu frá TR segir: „Ábending umboðsmanns Alþingis að orðalagið „sérstakar aðstæður“ eigi sér ekki stoð í lögunum er réttmæt. Munum við þegar bregðast við þeirri ábendingu og lagfæra texta bréfanna. Synjunin á afturvirkum greiðslum örorkulífeyris byggist enda ekki á því hvort um „sérstakar aðstæður“ sé að ræða heldur því hvort skilyrði mats á örorku séu uppfyllt.“

Daníel Isebarn ÁgústssonSegir TR gera lítið úr niðurstöðum umboðsmanns

Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður ÖBÍ, segir viðbrögð Tryggingastofnunar ekki verða skilin með öðrum hætti en að stofnunin muni halda áfram verklagi sínu og setja viðbótarskilyrði fyrir greiðslum aftur í tímann jafnvel þótt umboðsmaður Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að slíkt sé ólögmætt. Einnig segir Daníel TR gera lítið úr niðurstöðum umboðsmanns um að viðbótarskilyrði stofnunarinnar um „sérstakar aðstæður“ eigi sér ekki stoð í lögum. Stofnunin segir nú að ekki hafi verið byggt á skilyrði um „sérstakar aðstæður“ við synjun á afturvirkum greiðslum. „Það er beinlínis rangt enda kemur meðal annars fram að byggt var á því í máli konunnar sem leitaði til umboðsmanns í framangreindu máli,“ segir Daníel sem kveður ÖBÍ auk þess hafa fjölmörg dæmi um að Tryggingastofnun hafi synjað greiðslum aftur í tímann þar sem stofnunin telji ekki uppfyllt skilyrðið um „sérstakar aðstæður“. 

 

Mynda af heimasíðu TRTR beri að hafa frumkvæði að því að endurupptaka mál

Öryrkjabandalagið telur að TR beri sjálfri að hafa frumkvæði að því að endurupptaka mál en birta ekki aðeins tilkynningu á heimasíðu stofnunarinnar um að þeir geti óskað endurupptöku sem telji á sér brotið. „Ekki er hægt að ætlast til þess að öryrkjar gæti að þessum atriðum enda er um að ræða flókið lagalegt atriði sem margir átta sig ekki á,“ segir Daníel sem kveður ljóst að TR hafi gert mistök við afgreiðslu fjölda mála sem lúti að greiðslum aftur í tímann og beri því að leiðrétta þau mistök sjálf með því að fara yfir synjanir á slíkum beiðnum á síðustu árum.