Skip to main content
Frétt

Öryrkjabandalagið vill lagabreytingu varðandi vasapeninga

By 7. mars 2014No Comments

„Öryrkjabandalagið vill lagabreytingu varðandi vasapeninga“, segir meðal annars í viðtali DV við Ellen Calmon, formann ÖBÍ. Ellen bendir á að ÖBÍ hafi óskað eftir endurskoðun á lögunum og að þeim verði breytt. Um er að ræða stöðvun lífeyrisgreiðslu almannatrygginga þegar einstaklingur dvelur lengi á sjúkrahúsi, en þá tekur við greiðsla vaspeninga sem í dag eru að hámarki 51.800 krónur á mánuði.

„Árið 2011 fórum við fram á það við ráðherra að starfshópur yrði stofnaður um breytingar á þessum lögum, það varð ekkert af því þá“ segir Ellen meðal annars í viðtalinu. ÖBÍ hefur sent nýja tilllögu til núverandi ráðherra félags- og húsnæðismála, Eyglóar Harðardóttur um skipun í starfshóp svo tekið verði á þessum vanda og lífeyrisþegar haldi sínum lífeyrisgreiðslum og vasapeningar verði afnumdir.

Umræða hefur skapast að nýju eftir að frétt birtist í DV um konu sem bíður ígræðslu lungna og hefur þurft að dvelja á sjúkrahúsi vegna þessa í nokkra mánuði. Hún þarf þó líkt og flestir sem í slíkum erfiðleikum lenda, að standa skil á reikningum, reka húsnæði og sjá fyrir dóttur sem býr hjá henni.

Grein DV 7. mars 2014