Skip to main content
Frétt

Öryrkjar og eldri borgarar hvetja ríkisstjórnina

By 10. september 2013No Comments
til að standa við kosningaloforðin

Í dag klukkan 15 efndu Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtök eldri borgara til hvatningafundar á Austurvelli þar sem ríkisstjórn og þingheimur voru hvött til að standa við loforð sem gefin voru í aðdraganda Alþingiskosninganna um tafarlausa leiðréttingu kjara- og réttindaskerðinga frá árinu 2009. Samtökin hvöttu stjórnarflokkana til að tryggja í fjárlagafrumvarpi 2014 fjármagn til að leiðrétta allar skerðingar sem eldri borgarar og öryrkjar hafa orðið fyrir eins og lofað var.  Á fundinum tóku formenn ríkisstjórnarflokkanna við hvatningarskjali og skilti frá samtökunum með góðri kveðju til alls þingheims. Við það tækifæri þakkaði forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hvatningu fundarins og sagði að ekki stæði annað til en að standa við gefin loforð.

Frá Hvatningarfundinum, fólk stendur með skilti

Guðmundur Magnússon formaður ÖBÍ sagðist í ávarpi sínu ekki trúa öðru en að stjórnvöld hyggist lagfæra kjör lífeyrisþega verulega strax í nýju fjárlagafrumvarpi. Öðru vísi geti þessir flokkar ekki sagt að þeir hafi efnt þau loforð sem gefin voru fyrir kosningar og sem ítrekuð voru eftir að stjórn hafði verið mynduð.

Í ávarpi sínu vitnaði Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður LEB meðal annars í bréf sem Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sendi kjósendum fyrir kosningar en þar sagði hann: „Við ætlum að afturkalla kjaraskerðingu ellilífeyrisþega sem komið var á árið 2009 “ og ennfremur: „Við ætlum að afnema tekjutengingar ellilífeyris.“ Þá rifjaði hún upp orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins í Morgunblaðinu 27. apríl s.l. sem sagði : „Fjölmargir sem hafa mátt þola óeðlilegar skerðingar t.d eldri borgarar og öryrkjar þurfa að fá bót sinna mála“. Og eftir kosningar 25.maí sagði hann í fréttum RÚV:  „Gengið verður strax í að leiðrétta kjör öryrkja og aldraðra.“draðra.“

Skýr kosningaloforð

Í ályktunum flokkanna í aðdraganda Alþingiskosninganna í vor kom skýrt fram að það væri forgangs-mál að afnema og leiðrétta skerðingar á greiðslum til lífeyrisþega almannatrygginga frá í júlí 2009.

  • „ Í málefnum aldraðra er eftirfarandi brýnasta viðfangsefnið: Kjaraskerðing aldraðra og öryrkja sem tók gildi 1. júlí 2009 verði afturkölluð. Lífeyrir aldraðra og öryrkja verði hækkaður vegna kjaraskerðinga þeirra (og kjaragliðnunar) á krepputímum.“ Ályktun flokksþings Framsóknarflokksins
  • „Sú kjaraskerðing, sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir 1. júlí 2009, verði tafarlaust afturkölluð.„ Ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins

Það lofaði góðu þegar stjórnarflokkarnir ákváðu á þinginu fyrr í sumar að afturkalla tvær þeirra skerðinga sem gerðar voru á kjörum þessara hópa árið 2009 og hafa fundarboðendur trú á að með góðri hvatningu muni stjórnvöld efna að fullu loforðin sem gefin voru fyrir kosningar.

Sjá tengdar fréttir:

ruv.is

dv.is

ruv.is – kvöldfréttir sjónvarps