Skip to main content
Frétt

Öryrkjar sitja eftir

By 31. mars 2014No Comments

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, segir á visir.is að skuldaleiðréttingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi nánast engin áhrif á kjör öryrkja þar sem langflestir þeirra búi í leiguhúsnæði.

Ellen segir að ÖBÍ hafi ritað Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra bréf í desember þar sem ráðherranum sé bent á að fæstir örorkulífeyrisþegar njóti lækkunar höfuðstóls húsnæðisskulda vegna forsendubrests né vegna skattfrelsis sérstaks viðbótarsparnaðar.

Til þess að þessi hópur fái eitthvað er ráðherranum bent á að veruleg hækkun húsaleigubóta geti komið til móts við þennan hóp að einhverju leyti.

Hámark húsaleigubóta einstaklings er nú 22 þúsund krónur á mánuði og ÖBÍ leggur til að bæturnar verði hækkaðar um 5.472 krónur á mánuði. Sú hækkun væri í samræmi við vísitölu. „Við höfum ekki fengið neitt formlegt svar frá ráðherranum enn,“ segir Ellen.

Fer yfir stöðu húsnæðisfélaga

Í frétt á RÚV er haft eftir, Eygló Harðardóttur, félagsmálaráðherra, að farið verði yfir stöðu húsnæðisfélaga og er það svar hennar við gagnrýni ÖBÍ og ASÍ, varðandi skuldaleiðréttingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar sem hafa nánast engin áhrif á kjör öryrkja og þeirra sem lægstar hafa tekjur.