Skip to main content
Frétt

Öryrkjar þurfa að bíða

By 8. janúar 2015No Comments
Viðtal við Ellen Calmon formann ÖBÍ hjá RÚV 7. janúar um fyrirkomulag starfsendurhæfingar fyrir öryrkja.

Biðlistar hafa myndast við starfsendurhæfingastöðvar fyrir öryrkja hér á landi og hafa stöðvarnar ekki náð að vinna úr þeim. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalag Íslands segir að endurskoða þurfi fyrirkomulag starfsendurhæfinga.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins sagði í Morgunútgáfunni í morgun  að leggja þurfi meiri áherslu á starfsendurhæfingu en gert hafi verið. Nærri 9% fólks á vinnualdri séu á örorkubótum á Íslandi sem kosti um 55 milljarða á ári. Fá lönd verji jafn litlu til starfsendurhæfingar og Íslendingar.

Ellen Calmon formaður Öryrkjabandalagsins segir að starfsendurhæfingarstöðvar víðsvegar um landið hafi ekki náð að sinna biðlistum.  Skorið var niður til starfsendurhæfinga sjóðsins VIRK sem er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, ríkisins og sveitarfélaga. Ellen segir að vissulega sé bagalegt ef ríkið ætli að draga úr fjármögnun á starfsendurhæfingu. „Hins vegar skiptir það okkur meira máli að allir fái starfsendurhæfingu við hæfi hvort sem það fer þá í gegnum Virk starfsendurhæfingarsjóð eða að því sé sinnt með einhverju öðru móti t.d. sjáum við alveg fyrir okkur að Vinnumálastofnun sem er ríkisstofnun gæti t.d. haft umsjón með starfsendurhæfingu.“  

Endurskoða þurfi fyrirkomulag starfsendurhæfingar og tryggja rétt fólks til hennar.  Núna sé hægt að fá endurhæfingarlífeyri í 36 mánuði  í mesta lagi og það er ekki nóg.  Sumir þurfi 3 mánuði og aðrir 5 ár.  Einnig þurfi að taka til greina að endurhæfing geti verið nám.

Öryrkjabandalagið skrifar nú skýrslu um starfsgetumat í stað örorkumats. „Af því það er eitthvað sem stjórnvöld hafa áhuga á og við ákváðum að taka af skarið og stíga fram og reyna að leiða slíka vinnu.  Þar tökum við tillti til endurhæfingar, endurhæfingarlífeyris og hvernig við sjáum endurhæfingu fyrir okkur“