Skip to main content
Frétt

Öryrkjar vilja leiðréttingu

By 15. júní 2012No Comments
er fyrirsögn fréttar RÚV vegna viðtals við Lilju Þorgeirsdóttur framkvæmdastjóra ÖBÍ.

Verri kjör öryrkja

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins segir að hækkanir á bótum hafi ekki skilað sér sem skyldi. Kjör þeirra öryrkja sem þurfa á mikilli þjónustu að halda vegna fötlunar eða sjúkdóma hafa versnað mikið í kreppunni. Tekjuviðmið sem ræður því hvort öryrkjar fá uppbætur á lífeyri, svo sem vegna lyfjakostnaðar, hefur ekki breyst síðan í janúar 2010. Bætur hafa ekki hækkað í samræmi við lög um almannatryggingar síðastliðin fjögur ár á sama tíma og lyfja- og lækniskostnaður hefur hækkað mikið. Lilja segir að öryrkjar hafi orðið fyrir hlutfallslega meiri skerðingu en aðrir eftir hrun. Það birtist meðal annars í því að tekjutengingar sem gripið var til 1. júlí 2009 og skertu kjör öryrkja hafi ekki verið dregnar til baka þrátt fyrir mikil mótmæli og fyrirheit stjórnvalda á sínum tíma um að þær yrðu leiðréttar innan þriggja ára.

Tekjuviðmið hefur ekki breyst síðan 2009

Lilja segir jafnframt að skerðingarnar hafi verið gerðar í skjóli kreppunnar en hún sjái ekki að verið sé að leiðrétta þær að neinu leyti. Þá hefur tekjuviðmið Tryggingastofnunar sem ræður því hverjir eiga rétt á uppbót á lífeyri ekki breyst í tvö og hálft ár, jafnvel þótt lífeyrisgreiðslur hafi hækkað lítillega. Fimmtungi færri lífeyrisþegar fengu aðstoð vegna læknis-, tækja- og lyfjakostnaðar í febrúar síðastliðnum en á sama tíma í fyrra, jafnvel þótt lífeyrisþegum hafi fjölgað.

Tengill á viðtalið við Lilju framkvæmdastjóra ÖBÍ á RÚV, 13.06.2012.