Skip to main content
Frétt

Ósk um lista yfir leiðir öryrkja til þess að sækja réttindi sín 

By 15. maí 2014No Comments

ÖBÍ fagnar framtaki þingmanna allra flokka sem lagt hafa fram beiðni á Alþingi til Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra um skýrslu með tæmandi lista yfir leiðir öryrkja til þess að sækja réttindi sín hjá opinberri stjórnsýslu og skyldur þeirra samfara því.

Í greinargerð með beiðninni er vísað í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012, en þar komi fram að viðhöfð nálgun stjórnsýslunnar við afgreiðslu mála sem borgararnir kæra sé „til þess fallin að skapa borgaranum þá ímynd af stjórnsýslunni að hún sé honum mótfallin og að hann eigi að etja við andstæðing sem hefur bæði opinbert fjármagn og mannafla á bak við sig til að standa í vegi fyrir því að hann nái fram réttindum sínum. Slíkt er vitaskuld ekki markmiðið með opinberri stjórnsýslu sem á að vera í þágu borgaranna.“

Í ljósi þessa og með tilliti til upplýsinga-, leiðbeiningar- og frumkvæðisskyldu stjórnvalda benda þingmennirnir á að sé nauðsynlegt að til verði leiðarvísir sem veiti borgurum nákvæmar, aðgengilegar, skiljanlegar og tæmandi leiðbeiningar svo að þeir fái heildstæða yfirsýn yfir ferlið við að sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar.

Helstu atriði sem koma þurfa fram í skýrslunni.

Mikilvægt er að fram komi í skýrslunni nákvæmar, aðgengilegar, skiljanlegar og tæmandi leiðbeiningar yfir leiðir öryrkja til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur innan opinberrar stjórnsýslu – hjá ráðuneytum, stofnunum og öðrum aðilum hjá hinu opinbera – svo að öryrkjar fái heildstæða yfirsýn yfir réttindi sín og skyldur og ferlið við að sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar. Meðal þess sem koma þarf fram í skýrslunni er:

  • hver veitir öryrkjum aðstoð við að sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar,
  • hver úrskurðar um réttindi og skyldur öryrkja sem sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar og innan hvaða tímaramma,
  • hvenær heimilt er að kæra úrskurði til æðra stjórnvalds og, eftir atvikum, vísa til dómstóla,
  • hver skuli framfylgja úrskurðum sem felldir hafa verið,
  • hvaða úrræði eru til staðar ef embætti stjórnsýslunnar hindra framgang úrlausnarinnar með aðgerðum eða aðgerðaleysi.

Sjá beiðni þingmannanna og greinargerð í heild á heimasíðu Alþingis