Skip to main content
Frétt

Óþægileg börn og barnasáttmáli SÞ

By 20. nóvember 2013No Comments

Í tilefni af degi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skrifar Freyja Haraldsdóttir, grein á visir.is um stöðu fatlaðra barna.

Í greininni kemur meðal annars fram að sum börn verji allt að tveimur vikum í burtu frá fjölskyldum sínum í mánuði á skammtímadvölum. Börn sem þurfa líka að bíða eftir og inn í leigubílum allt að tíu klukkustundir í viku í öllum útifötunum þar sem þau keyra um með ókunnugum bílstjórum og ókunnugu fólki.

Þau fá oft verulega takmarkað tækifæri til frelsis og sjálfstæðis, nema í gegnum foreldra sína, sem oft leggja gríðarlega mikið á sig, miklu meira en þeim ber skylda til, svo þau geti tekið þátt í samfélaginu.

Freyja bendir á að Barnasáttmáli SÞ hafi nýlega verið lögfestur á Íslandi og vitnar til fjölda lagagreina í sáttmálanum þar á meðal í 23. grein, en þar er fjallað sérstaklega um fötluð börn, einmitt þar sem þau eru þolendur mismununar á grundvelli aldurs og fötlunar, en þar kemur fram að þau eiga að búa við aðstæður sem tryggja þeim virðingu, stuðli að sjálfstæði þeirra og virkri þátttöku í samfélaginu. Jafnframt að þau skuli hafa aðgang að sérstakri aðstoð og möguleika á menntun, heilbrigðisþjónustu, tómstundaiðju o.fl.. Börn eiga, samkvæmt 31. grein, rétt á hvíld, leikjum, skemmtun og að njóta menningarlífs og lista sem hæfa aldri þeirra.

Í lokaorðum segir Freyja „Það er lykilatriði að með lögfestingu Barnasáttmálans verði unnið markvisst að því að bæta réttarstöðu fatlaðra barna með þeim hætti að þau geti, með viðeigandi aðstoð, tjáskiptaleiðum, stoðtækjum og aðgengi, notið fjölskyldulífs, tekið þátt í samfélaginu og haft áhrif á það á öllum sviðum. Einnig að þau fái tækifæri til þess að lifa með reisn og að virðing sé borin fyrir lífi þeirra nákvæmlega eins og það er.“

„Því þau eru ekki óæskilegar og óþægilegar annars flokks verur og baggi á samfélaginu heldur fyrst og fremst borgarar sem hafa sama tilkall til mannréttinda og ófötluð börn. Alltaf. Alls staðar.“

Fréttin í heild á heimasíðu visir.is


Menningarmót – Fljúgandi teppi. Afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verður fagnað í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15, sunnudaginn 24. nóvember kl. 15.00