Skip to main content
Frétt

Pinn undanþágum hætt 19. janúar

By 6. janúar 2015No Comments
Útgefendur greiðslukorta hefja afnám pinn-undanþágu sem almennt hefur verið í gildi undanfarin misseri. Korthafar sem ekki geta notað pinnið vegna fötlunar eða af heilsufarsástæðum geta leitað til síns banka eða sparisjóðs og sótt um áframhaldandi heimild.

Þann 19. janúar næstkomandi munu útgefendur greiðslukorta hefja afnám pinn-undanþágu sem almennt hefur verið í gildi undanfarin misseri. Þetta er lokahnykkur átaksins Pinnið á minnið. Korthafar sem muna ekki pinnið hafa hingað til getað staðfest greiðslur með því að ýta á græna takkann á posanum. Frá 19. janúar 2015 verður ekki hægt að treysta á græna takkann. Því er mjög mikilvægt að allir þeir sem af einhverjum ástæðum telja sig ekki geta notað pinnið setji sig í samband við útgefanda greiðslukortsins, banka eða sparisjóð, þannig að hægt sé að leysa úr þeirra málum.

Undanþága til að geta nýtt græna takkan fæst hvar?

Korthafar sem ekki geta notað pinnið vegna fötlunar eða af heilsufarsástæðum geta leitað til síns banka eða sparisjóðs (þess aðila sem gaf út greiðslukortið) og sótt um áframhaldandi heimild til að ýta á græna takkann og skrifa undir greiðslukvittun. Hver og einn korthafi þarf að sækjast eftir lausn hjá sínum banka eða sparisjóði.

Það skiptir miklu að aðgengi að posum sé gott þannig að allir viðskiptavinir eigi auðvelt með að staðfesta kortagreiðslur sjálfir. Á þetta höfum við lagt ríka áherslu á vettvangi Pinnið á minnið og notið þar aðstoðar frá Aðgengi við mótun upplýsinga. Þær má meðal annars finna á heimasíðu Pinnið á minnið.


Frétt um aðgengi fatlaðs fólks að posum á heimasíðu Pinnið á minnið