Skip to main content
Frétt

Réttur til almannatrygginga byggir á búsetutíma

By 14. júní 2013No Comments

Hæstiréttur sýknaði ríkið af kröfu einstaklings um ólögmætar skerðingar vegna búsetu.

Í umræddu máli kröfuhafa hafði Tryggingastofnun ríkisins ákvarðað rétt hans til greiðslna í samræmi við búsetutíma á Íslandi. Var byggt á því að samkvæmt 4. mgr. 18. gr. almannatryggingalaga skal fullur ellilífeyrir greiðast þeim einstaklingum sem búsettir hafa verið hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Tryggingastofnun byggði jafnframt á því að að réttur til örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar og tekjutryggingar reiknaðist á sama hátt út frá búsetutíma.

Stefnandinn taldi aftur á móti að ekki væri fullnægjandi lagaheimild fyrir því að reikna rétt hans til greiðslna á þeim forsendum sem Tryggingastofnun ríkisins gerði. Um væri að ræða skerðingu á réttindum sem væri óheimil og fæli jafnframt í sér ólögmæta mismunun gagnvart erlendum ríkisborgara og brot á jafnræðisreglu.

Niðurstaða héraðsdóms sem Hæstiréttur hefur nú staðfest var að réttur til greiðslna ráðist af búsetutíma og gildi þar einu hvort viðkomandi hafi íslenskt eða erlent ríkisfang. Að láta réttindi miðast við búsetutíma sé því málefnalegur grundvöllur og brjóti ekki gegn reglum um jafnræði.

Hæstiréttur vísar jafnframt til þess að viðmið almannatryggingalaganna við búsetu væri almennt og gilti óháð ríkisborgararétti, kynferði, þjóðernisuppruna eða stöðu að öðru leyti. Var því hvorki fallist á það að reglurnar fælu í sér ólögmæta mismunun, færi í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði né að brotið væri með þeim gegn reglu um meðalhóf. Þá var ekki heldur fallist á að skerðingin hefði verið óheimil með vísan til 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.