Skip to main content
Frétt

Reykjavíkurborg breyti reglum um sérstakar húsaleigubætur

By 7. desember 2010No Comments
Svar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis við umkvörtun ÖBÍ.

Öryrkjabandalagi Íslands hefur borist svar við kvörtunarbréfi sem bandalagið sendi
í janúar 2010 til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Kvörtunin beindist að því fyrirkomulagi Reykjavíkurborgar, frá vori 2008, að sérstakar húsaleigubætur væru ekki greiddar þeim einstaklingum með litlar eða lágar tekjur sem leigja í húsnæði á vegum félags- og líknarsamtaka. Á sama tíma greiddi Reykjavíkurborg sérstakar húsaleigubætur til þeirra sem leigðu hjá Félagsbústöðum hf eða á almennum markaði.

Í áliti ráðuneytisins er meðal annars vísað á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins um sérstakar húsaleigubætur en þar segir:

„Sérstakar húsaleigubætur eru ætlaðar leigjendum sem búa við mjög erfiðar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður. Stuðningurinn er tengdur leigjandanum sjálfum í formi sérstakra bóta sem taka mið af persónulegum aðstæðum í stað þess að tengjast íbúðinni. Breytingin felur jafnframt í sér að valfrelsi leigjenda eykst og stuðningskerfið verður sýnilegra.

Umsækjendur sem uppfylla ákveðin skilyrði, til dæmis um tekjur og eignir, eiga rétt á greiðslum. Aðgerð þessi er í samræmi við 4. mgr. 5. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, og sérstöku húsaleigubæturnar fylgja skilyrðum, reglum og jafnvel útreikningi hefðbundinna húsaleigubóta og eru nátengdar þeim. Frá 1. apríl 2008 endurgreiðir ríkið í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga 60% af útgjöldum sveitarfélaga vegna sérstakra húsaleigubóta.“

Í áliti sínu beinir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að breyta reglum sínum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Virða beri grundvallarsjónarmið sem jafnræðisregla stjórnsýslunnar feli í sér. Sú regla sé sett til hagsbóta fyrir borgarana. Greiðsla sérstakar húsaleigubóta sé sértæk aðgerð sem miða eigi að því að rétta hlut þeirra sem bágust kjör hafa. Kanna beri því fjárhagslega stöðu allra sem sækja um sérstakar húsaleigubætur.

Álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðneytisins í heild (pdf-skjal 811 kb)