Skip to main content
Frétt

Reykjavíkurborg mismunar leigjendum

By 30. janúar 2014No Comments

Leigjendur fá ekki sérstakar húsaleigubætur ef þeir búa í húsnæði félaga- eða líknarsamtaka.

Í morgunþætti Bylgjunnar, Í bítið, var viðtal við Daníel Isebarn Ágústsson, lögfræðing, sem unnið hefur að máli fyrir ÖBÍ varðandi séstakar húsaleigubætur til þeirra sem eru í erfiðri fjárhagsstöðu og leigja hjá Brynju hússjóð Öryrkjabandalagsins. Um alllanga hríð hefur Reykjavíkurborg ekki vilja greiða þær bætur til aðila sem þar leigja. Daníel rakti þá sögu í viðtalinu.

Reykjavíkurborg hefur sett sér þá reglu að þeirra sögn að einstaklingar sem leigja hjá félaga- eða líknarsamtökum eigi ekki rétt á sérstökum húsaleigubótum hjá Reykjavíkurborg sama hve erfið fjárhagsstaða einstaklingsins er. Hinsvegar greiðir borgin þeim sem eru á almennum leigumarkaði eða í félagslegum íbúðum séstakar húsaleigubætur. Fólki er því mismunað með slíkri framkvæmd. Tilgangurinn með sérstöku húsaleigubótunum er að styðja þá sem eru í erfiðustu fjárhagsstöðunni.

ÖBÍ hefur unnið að þessu máli í 5 ár 

Þetta er ekki ný stefna hjá Reykjavíkurborg, því fyrir fimm árum hófust bréfasamakipti ÖBÍ við borgina varðandi slíkt mál. Borgin hafnaði því að taka þá gagnrýni til greina. Þá var kvartað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins  (nú innanríkisráðuneytis) og niðurstöður ráðuneytisins voru að skilgreining Reykjavíkurborgar stæðist ekki, verið væri að mismuna fólki.

Í fyrra reyndi einn leigjandi Brynju hússjóðs að sækja mál gegn borginni vegna síns máls og tókst borginn með útúrsnúningum að snúa málum sér í hag svo málinu var vísað frá.

Álit ráðuneytisins um hegðan Reykjavíkurborgar

Í áliti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til ÖBÍ, varðandi reglur Reykjavíkurborgar á úthlutun sérstakra húsaleigubóta, segir meðal annars í niðurlagi við rökum Reykjavíkurborgar  „…hins vegar getur slík ályktun ekki aflétt þeirri almennu rannsóknarskyldu stjórnvalds að kanna kjör þeirra sem sækja um hið sértæka úrræði sem sérstöku húsaleigubæturnar eru…“ og síðar í niðurstöðu ráðuneytisins varðandi 3. gr. úthlutunarreglur borgarinnar segir að þetta sé „…í andstöðu við grundvallarsjónarmið sem felst í jafnræðisreglu stjórnsýslunnar.“  „… jafnræðisreglan er sett til hagsbóta fyrir borgarana í samskiptum við handhafa hins opinbera valds…“ . Þrátt fyrir niðurstöðu ráðuneytisins var viðmiðinu ekki breytt hjá Reykjavíkurborg.