Skip to main content
Frétt

Risavaxin blómabreiða, Táknmálskórinn ásamt Fjallabræðrum, 5 metra trjávörður og fleira og fleira…

By 28. apríl 2011No Comments

á opnunarhátíð List án landamæra, föstudaginn 29. apríl kl. 17.00 í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Listahátíðin List án landamæra er listahátíð fjölbreytileikans. Kröftug rödd sem brýtur niður múra. Á hátíðinni vinna ólíkir aðilar saman að allskonar list með frábærri útkomu. Það hefur leitt til auðugra samfélags og aukins skilnings manna á milli.
 
Hátíðin verður sett föstudaginn 29.apríl klukkan 17 í Ráðhúsi Reykjavíkur, þar stígur á stokk fjöldinn allur af frábæru listafólki. Meðal annars vestfirski karlakórinn Fjallabræður sem kemur fram ásamt táknmálskórnum sem „syngur“ á táknmáli. Erla Björk leikur af fingrum fram á bongótrommur, Diddú kemur fram ásamt Aileen Svensdóttur og Fjöllistafólkið Tara Þöll, Jakob Alexander, Kolbeinn Örn, Helgi M. og Ásta Hlöðvers láta gamminn geysa í rímnaflæði. Þeim innan handar verður Birkir Halldórsson meðlimur hljómsveitarinnar goðsagnakenndu Forgotten
Lores. Valur Geislaskáld mun lesa ljóð og Guðrún S. Gísladóttir les upp úr bókinni „Undur og örlög“ eftir Áslaugu Ýr Hjartardóttur. Kynnar verða Gunnar Þorkell Þorgrímsson og Björn Thors,

Dagskrá um allt land

Meðal viðburða á hátíðinni í ár eru sýningar og uppákomur úti og inni í Norræna húsinu í samstarfi við Vatnsmýrarhátíð. Þar á flötinni rís risavaxin blómabreiða, við sjáum íslensk eldfjöll með augum finnskra listamanna. Það verður sýning og málþing í Þjóðminjasafninu, leiksýning og tónleikar í Iðnó, risastór trjávörður tekur sér bólfestu í Kjarnaskógi, töfrum slungin dagskrá verður á Egilsstöðum og lengi mætti telja upp spennandi og skemmtileg atriði um allt land.

Þátttakendur í hátíðinni eru fólk með skrýtin áhugamál, fólk með geðræna sjúkdóma, fólk frá Finnlandi, fólk með stóra fætur og litla fætur, kvenfélög, hæfingarstöðvar, fólk með mikla hreyfihömlun, listasöfn, dreifbýlingar og þéttbýlingar, sjálfstæðir leikhópar, fólk með þroskahömlun, leikarar, fólk sem er börn, fólk sem er fullorðið. Listafólk af öllum toga og umfram allt hópur af frábæru skapandi fólki.
Hátíðin er haldin á höfuðborgarsvæðinu, á Norðurlandi, á Austurlandi, í Reykjanesbæ, á Vesturlandi og á Suðurlandi.

Tengill á dagskrá allra viðburða

Einnig er hægt að nálgast bæklingin í pappírsformi á sýningarstöðum og hjá félögum sem standa að hátíðinni.
 
Samstarfsaðilar í stjórn Listar án landamæra eru: Fjölmennt – fullorðinsfræðsla fatlaðra, Átak – félag fólks með þroskahömlun, Hitt húsið, Landssamtökin Þroskahjálp, Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum, Öryrkjabandalag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna.
 
Frítt er á alla viðburði hátíðarinnar og eru allir velkomnir.

List án landamæra