Skip to main content
Frétt

Samfélagslampi Blindrafélagsins veittur fyrsta sinni

By 20. ágúst 2009No Comments
Á hátíðarsamkomu Blindrafélagsins sem haldin var í tilefni af 70 ára afmæli félagsins var Samfélagslampi Blindrafélagsins veittur Bónus og Reykjavíkurborg.

Í tilefni þessa að 70 ár eru liðin frá stofnun Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, ákvað stjórn félagsins að stofna til viðurkenningar sem veitt yrði fyrirtækjum eða stofnunum og bæri nafnið, Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi. Tilgangurinn með viðurkenningunnni er að vekja athygli á fyrirtækjum eða stofnunum sem með einum eða öðrum hætti hafa stuðlað að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga.

Samfélagslampinn var veittur í fyrsta skiptið í gær þann 19. ágúst, á 70 ára afmælisdegi Blindrafélagsins, afhendingin fór fram á hátíðarsamkomu sem haldinn var í tilefni þessara merku tímamóta á Hótel Nordica.

Fyrstir til að hljóta þessa viðurkenningu voru Bónus og Reykjavíkurborg sem á mjög ólíkan hátt hafa stuðlað að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga.

Bónus verslununum er veittur Samfélagslampi Blindrafélagsins fyrir áralangt traust viðskiptasamband við Blindravinnustofuna, sem er starfsþjálfunar- og endurhæfingarvinnustaður í eigu Blindrafélagsins sem pakkar hreingerningaáhöldum til sölu á smásölumarkaði. Viðskiptasamband Bónus og Blindravinustofunnar, sem staðið hefur allt frá því að Bónus hóf starfsemi, felst fyrst og fremst í því að Bónus gefur Blindravinnustofunni tækifæri til að keppa á markaði á eigin verðleikum og verðleikum þeirra vara sem vinnustofan býður uppá. Það er meir en aðrar verslanir og verslunarkeðjur hafa megnað að gera.

Reykjavíkurborg er veittur Samfélagslampi Blindrafélagsins fyrir ferðaþjónustu blindra sem búsettir eru í Reykjavík. Ferðaþjónustan, sem rekin hefur verið með núverandi sniði frá 1997, er þjónusta sem aukið hefur við sjálfstæði allra blindra reykvíkinga frá því að hún var sett á laggirnar. Ferðaþjónustan gengur í stuttu máli út á að einstaklingur sem er með lögheimili í Reykjavík og hefur greinst lögblindur hefur rétt á að nýta sér 60 ferðir leigubifreiða á strætisvagnafargjaldi. Dæmi eru um að lögblindir einstaklingar hafa geta haldið áfram að vera virkir á vinnumarkaði og félagslífi  – allt vegna ferðaþjónustu blindra.

Það er fátt ef þá nokkuð sem skerðir sjálfstæði blindra og sjónskertra meira en það að geta ekki komist ferða sinna á sjálfstæðan máta. Reykjavíkurborg er eina sveitarfélag landsins sem veitir blindum og lögblindum íbúum sínum sértæka ferðaþjónustu sem uppfyllir ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem m.a. Ísland skrifaði undir í mars 2007.

  • Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi veittur Reykjavíkurborg árið 2009 fyrir ferðaþjónustu blindra. Áletrunin á Samfélagslampa Reykjavíkurborgar er, Stuðningur til sjálfstæðis.
  • Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi veittur verslunum Bónus árið 2009 fyrir áralangt traust samstarf við Blindravinnustofuna. Áletrunin á Samfélagslampa Bónus er, Stuðningur til sjálfstæðis.