Skip to main content
Frétt

Samkeppni um nafn á nýja þjónustustofnun

By 19. september 2014No Comments

Hafin er samkeppni um nafn á nýja þjónustustofnun fyrir fatlað fólk.

Hafin er samkeppni um nafn á nýja þjónustustofnun fyrir fatlað fólk sem verður til samkvæmt frumvarpi Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um sameiningu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands og Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Frestur til að senda inn tillögur um nafn rennur út 1. október. Auk stofnananna þriggja er miðað við að Tölvumiðstöðin sem Öryrkjabandalagið hefur rekið með styrk frá ríkinu verði einnig hluti af hinni nýju stofnun. 

Ný stofnun mun sinna fjölbreyttum hópi fólks og leiða til betri þjónustu við þá sem búa við samþættar fatlanir og hafa hingað til þurft að nýta þjónustu fleiri en einnar þessara stöðva. Stofnunin mun einnig veita fjölbreytta þjónustu á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu, m.a. með greiningum, ráðgjöf, rannsóknum, þekkingarmiðlun og endurhæfingu. Frumvarp um nýja sameinaða stofnun verður lagt fram á Alþingi í haust.

Heiti nýrrar stofnunar sem fyrirhugað er að koma á fót hefur ekki verið ákveðið. Áhugasömum er boðið að koma með tillögur að nafni á nýrri stofnun. Þriggja manna valnefnd mun síðan velja nafn úr tillögunum.