Skip to main content
Frétt

Samstarf um bætt aðgengi allra að ferðamannastöðum

By 3. maí 2007No Comments
Í dag var skrifað undir samstarfssamning sem miðar að bættu aðgengi allra að áningar- og útivistarstöðum um allt land. Aðilar samningsins eru Ferðamálastofa, Öryrkjabandalag Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðaþjónusta bænda og Ferðamálasamtök Íslands.

Veturinn 2006, í kjölfar ráðstefnunnar “Ferðaþjónusta fyrir alla” sem samgönguráðuneytið hafið forgöngu um, var hleypt af stokkunum samstarfsverkefni framangreindra aðila um bætt aðgengi ferðfólks að áningar- og útivistarstöðum. Sérstaklega var hugsað til þess að bæta aðgengi hreyfihamlaðra en aðgengi að áningar- og útivistarstöðum er oft á tíðum erfitt og jafnvel ómöguleg stórum hópi fólks.

Viðmiðin eru flokkuð eftir því hver hreyfihömlunin er og síðan miðað við það hvað er ásættanlegt aðgengi í hverjum flokki. Í fyrstu verða flokkarnir þrír og koma þeir til með að nýtist flestum. Flokkarnir eru:
  1. Í hjólastól án aðstoðar
  2. Í hjólastól með aðstoð
  3. Gönguhömlun

Ferðamálastofa mun sjá um úttekt á svæðum og koma upplýsingum um þau á framfæri.

Í framhaldi af þessum viðmiðum eru ofantaldir samstarfsaðilar að vinna að viðmiðum fyrir veitinga- og skemmtistaði, hótel og gististaði. Sjá nánar á heimasíðu Ferðamálastofu, ferdamalastofa.is