Skip to main content
Frétt

Samþykkt að hætta við boðaðar skerðingar og niðurfellingar á lífeyri til öryrkja vegna tekna ársins 2005.

By 21. desember 2006No Comments
Á fundi fulltrúa lífeyrissjóða innan Greiðslustofu lífeyrissjóða þann 11. desember sl. var samþykkt tillaga sem gerir ráð fyrir að hætt verði við breytingar á lífeyrisgreiðslum til öryrkja sem tilkynnt var í framhaldi af tekjukönnun Greiðslustofunnar í sumar vegna tekna ársins 2005.

Samþykkt var að leggja til við stjórnir viðkomandi lífeyrissjóða að á næsta ársfundi sjóðanna verði gerðar breytingar á samþykktum þeirra þess efnis að viðmiðunartekjur vegna örorkulífeyris taki breytingum í samræmi við launavíssitölu í stað vísitölu neysluverðs.

Tekjuathugun örorkulífeyrisþega innan GL verði frestað þar til umræddar breytingar hafi hlotið staðfestingu viðkomandi stjórnvalda og verði þá viðmiðunartekjur ársins 2006 lagðar til grundvallar við samanburð á tekjum fyrir og eftir orkutap. Allar lífeyrisgreiðslur sjóðanna verði eftir sem áður miðaðar við breytingar á vísitölu neysluverðs.

Gildi stærsti lífeyrissjóðurinn af þeim 14 sem um ræðir hefur þegar samþykkt tillöguna en tillagan er enn til meðferðar hjá nokkrum sjóðanna. Öryrkjar ættu þar með ekki lengur að þurfa að óttast skyndilegar og neikvæðar breytingar á kjörum sínum þann 1. febrúar nk. eins og óttast hefur verið.

Öryrkjabandalagið mun fylgjast grannt með þróun mála og vaka yfir hagsmunum öryrkja og lög- og stjórnarskrárvörðum réttindum þeirra.