Skip to main content
Frétt

Samtök um sjálfstætt líf stofnuð 17. júní

By 22. júní 2009No Comments
Samtök um sjálfstætt líf (e. Independent Living movement) voru stofnuð hér á landi á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2009 af hópi fatlaðs fólks, en Sjálfsbjörg, ÖBÍ og Þroskahjálp hafa stutt við framtakið ásamt starfsfólki í fötlunarfræðinni við HÍ.

Stofnfundurinn Samtaka um sjálfstætt líf, (SSL) var haldinn á Hótel Borg við Austurvöll. Að honum loknum var heilsað upp á afmælisbarnið Jón Sigurðsson. Félagið er hluti af hinni alþjóðlegu Independent Living hreyfingu, alþjóðlegri borgarahreyfingu fólks með fötlun.Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir, formaður SSL, afhendir starfsmanni Félags- og tryggingamálaráðuneytis grasrótina, til að minna á stofnun samtakanna, 17. júní sl.

Upphafið má rekja til réttindabaráttu fatlaðs fólks í Berkeley háskóla í Bandaríkjunum, sem á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar barðist fyrir því að lifa sjálfstæðu lífi og fá þá þjónustu/aðstoð sem til þess þyrfti. Gagnrýnin beindist að því hversu mikil völd heilbrigðisstarfsfólk hafði yfir daglegu lífi fatlaðs fólks. Það mótmælti þessu með þeim rökum að fatlað fólk væri ekki sjúkt og þyrfti ekki á umönnun heilbrigðisstarfsfólks að halda.

Baráttan hafði áhrif, og ákveðið var að setja upp nýtt fyrirkomulag á aðstoð við fatlaða stúdenta á háskólasvæðinu sem fólst í því að nemendurnir skilgreindu sjálfir þarfir sínar, hversu mikla og hvers konar aðstoð þeir þyrftu á að halda og hvenær og hverjir veittu aðstoðina. Þátttaka þeirra í háskólalífinu jókst og frammistaða þeirra í námi var mun betri.

Hugmyndafræði um Sjálfstætt líf fór að breiðast út til annarra landa og hafa samskonar samtök verið stofnuð víða um heim sjá, THE EUROPEAN NETWORK ON INDEPENDENT LIVING (ENIL) www.enil.eu

25 ára afmæli sambærilegra samtaka í Svíþjóð!

Í Svíþjóð var haldið upp á 25 ára afmæli samtaka um sjálfstætt líf í nóvember á síðasta ári. Það var orðið löngu tímabært að fatlaðir Íslendingar tækju málin í sínar hendur og ynnu að raunverulegu sjálfstæði og fullveldi yfir sínu eigin lífi. Loksins erum við að komast á kortið!

Samtökin um sjálfstætt líf færði Árni Páli Árnasyni Félags-og tryggingamálaráðherra að gjöf grasrót á silfurbakka til að vekja athygli hanns og ráðuneytisins á stofnun samtaknna og til að minna menn á AÐ HLUSTA Á GRASRÓTINA!

Í stjórn SSL voru kjörin:
Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir, formaður, til 1 árs
Andri Valgeirsson, til 2 ára
Ásdís Jenna Ástráðsdóttir, til 2 ára
Arnþór Karlsson, til 1 árs
Aileen Soffía Svensdóttir, til 1 árs.