Skip to main content
Frétt

Sáttmáli um réttindi fatlaðra samþykktur af Sameinuðu þjóðunum.

By 14. desember 2006No Comments
Fyrsti mannréttindasáttmáli nýrrar aldar var samþykktur á allsherjarþingi SÞ í New York í gær. Hann nær beint til 650 milljóna manna með fötlun í heiminum.

Sáttmálinn fjallar um rétt fatlaðra til menntunnar, heilbrigðis, atvinnu og margra fleiri þátta. Í ræðu sinni sagði Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna að samþykkt sáttmálans markaði nýja dögun í málefnum fatlaðra um allan heim sem allt of lengi hefðu þurft að sæta kúgun og mismunun. Aldrei fyrr í sögu Sameinuðu þjóðanna hefur mannréttindasáttmáli verið samþykktur á jafn skömmum tíma en þrjú ár eru síðan vinna við sáttmálann hófst.

Kofi Annan hvatti ríkisstjórnir heimsins til að láta hendur standa fram úr ermum og lögfesta sáttmálann án tafar.

Sáttmálinn gerir ráð fyrir því að aðildarríki aðlagi löggjöf sína að sáttmálanum en fyrstu ríkin geta staðfest hann þann 30. mars 2007. Hann öðlast alþjóðlegt gildi þegar tuttugu ríki hafa staðfest sáttmálann. Óvíst er með hvaða hætti íslensk stjórnvöld hyggjast staðfesta hann og sömuleiðis hvernig farið verður yfir þá innlendu löggjöf sem þarf að aðlaga og breyta.

Í finnska utanríkisráðuneytinu er verið að yfirfara margvíslega löggjöf með hliðsjón af sáttmálanum. Finnar leiddu lengi vel starf Evrópusambandsins í undirbúningsstarfinu. Að mati þarlendra embættismanna er nauðsynlegt að taka u.þ.b. tvö ár í breytingar á lögum áður en sáttmálinn er staðfestur. Þannig hafa Finnar einnig nálgast aðra alþjóðlega sáttmála. Ekki er víst að þetta sé betri aðferð en að staðfesta sáttmálann fyrst og breyta lögunum í framhaldinu. Hér er um tvær nálganir að ræða sem taka verður afstöðu til.

Í byrjun árs 2007 stendur til að ÖBÍ efni til málfundar um sáttmálann um réttindi fatlaðra í samstarfi við Landssamtökin Þroskahjálp. Víst er að ef rétt er á málum haldið mun sáttmálinn hafa mikla þýðingu á Íslandi.

Tengill á fréttavef heimasíðu SÞ