Skip to main content
Frétt

Skammast sín fyrir fátæktina

By 9. maí 2012No Comments

Segir Guðmundur Magnússon formaður ÖBÍ m.a. í viðtali í Morgunblaðinu 9. maí um stöðu öryrkja eftir hrun.

„Staðan er mjög slæm. Því miður. Ég merki það á fjölda þeirra öryrkja sem leita til okkar í vanda. Sá hópur fer stækkandi ef eitthvað er. Peningurinn endist ekki lengi. Hann er búinn um miðjan mánuðinn. Þetta er að verða eitt lengsta skeið fjárhagslegra þrenginga sem öryrkjar hafa búið við í þá áratugi sem ég hef látið mig kjör þeirra varða,“ segir Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, um stöðuna hjá öryrkjum nú þegar fimm mánuðir eru þangað til fjögur ár verða liðin frá hruninu.

Nauðsynjavörur hækka í verðiGuðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ

Guðmundur rekur bág kjör öryrkja til þess að bætur hafi ekki fylgt verðþróun. Þá hafi verð á nauðsynjavörum hækkað mikið eftir að gengi krónunnar hríðféll.

„Lyf og lækniskostnaður eru að hækka upp úr öllu valdi. Það er ekki búið að semja við sérfræðinga og því þurfa margir sjúklingar, öryrkjar þar með taldir, að greiða meira í komugjöld hjá sérfræðingum. Munurinn getur verið frá 500 krónum og upp í 3.500 krónur í hverri heimsókn. Tekjulágt fólk munar um slíkar upphæðir. Það kann að hafa dregið úr lyfjakostnaði fyrir samfélagið í heild en fyrir einstaklingana og öryrkja hefur hann hækkað,“ segir Guðmundur sem telur öryrkja bregðast misjafnlega við dýrtíðinni.

Reiði og skömm

„Sumir eru reiðir en aðrir loka sig inni. Fólk fer ekki neitt. Það skammast sín. Þegar farið er að líða á mánuðinn á það ekki fyrir einu eða neinu. Því finnst það svo skammarlegt að búa við fátækt að það lokar sig sinni. Það er þó misjafnt hvernig fólk bregst við bágum kjörum. Fólk er að reyna að láta peningana duga fram að mánaðamótum og sumum tekst það jafnvel. Hvernig veit ég ekki. En margir eiga þess ekki kost, jafnvel þótt þeir leiti allra úrræða. Fólk er hætt að hreyfa bílana. Það hefur ekki efni á bensíni. Að öllu samanlögðu er þessi kreppa því sú erfiðasta sem ég hef séð. Það eru ákveðin batamerki í samfélaginu en þau hafa ekki skilað sér til öryrkja. Stærstur hluti láglaunafólks býr við skert kjör vegna verðbólgu og almennra verðhækkana. Hann rýrnar stöðugt peningurinn í launaumslaginu,“ segir Guðmundur og víkur að nýrri skýrslu sem Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, og Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur, unnu á vegum Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands um áhrif hrunsins á lífskjörin.

Er ein meginniðurstaðan sú að botninum hafi verið náð 2010 og að síðan hafi kjörin batnað. Er mat þeirra að kaupmáttarrýrnunin sé „sennilega“ sú mesta síðan 1945.

Uppfæra þarf viðmiðin

„Þessi skýrsla er góð út af fyrir sig en hún er almennt orðuð. Við viljum sjá meira af krónutölum. Tekjubilin koma ekki fram. Svo bíðum við eftir því að neysluviðmiðin verði uppfærð. Velferðarráðuneytið boðaði uppfærð viðmið í apríl en ekki var staðið við það. Annað atriði er að húsaleiga er alltof há,“ segir Guðmundur Magnússon.

Grein birt í Morgunblaðinu 9. maí – greinarhöfundur Baldur Arnarsson.


Sjá tengdar fréttir:

Vanskil færast í aukana – frétt á Stöð2 – 8 maí.

„Fólk er komið á brúnina“ – frétt á mbl.is 9. maí