Skip to main content
Frétt

Skerða séreignalífeyrisgreiðslur bætur örorkulífeyrisþega?

By 29. febrúar 2012No Comments

Jón fær 12 krónur af 358.536 í vasann af séreignalífeyrisgreiðslu sinni, á ársgrundvelli.

Í fréttum síðustu daga um séreignalífeyrissparnað, hefur meðal annars komið fram að slíkar greiðslur skerði krónu á móti krónu bætur almannatrygginga. Dæmin sem hafa verið sýnd snúa eingöngu að ellilífeyrisþegum. Þótt færri eigi þennan rétt meðal öryrkja er þar um sömu skerðingu að ræða.   

Það er rétt sem Tryggingastofnun ríkisins og Landssambandi lífeyrissjóða hafa bent á að séreignalífeyrir skerði eingöngu framfærsluuppbót og uppbót á lífeyri vegna mikils lyfjakostnaðar. Hinsvegar er þar fremur lítið gert úr þeim skerðingaráhrifum sem eru króna á móti krónu af bótaflokki TR sem kallast framfærsluuppbót.

Jón fær 12 krónur af 358.536 í vasann

Tökum dæmi af einstaklingi sem varð öryrki 40 ára gamall og býr einn – köllum hann Jón. Hann hafði greitt í allmörg ár í lífeyrissjóð. Þrátt fyrir það fær hann ekki greiðslur frá þeim.**  Hann hafði einnig greitt í séreignarlífeyrissjóð og líkt og aðrir landsmenn á hann rétt á að taka út úr þeim sjóði þessa dagana. Jón varð fyrir óvæntum útgjöldum og ákvað að taka út kr. 300.000 á ársgrundvelli, sem gerir greiðslu upp á kr. 25.000 (brúttó) á mánuði.

Tekjur (bætur) hans frá Tryggingastofnun höfðu verið samtals kr. 203.005 (eftir skatta 173.735), sem er hámarksgreiðsla frá TR fyrir einstakling sem býr einn, og er ekki með aðrar tekjur.

Við fyrstu 25.000 krónu greiðslu séreignalífeyris og greiðslu hans frá TR, urðu samanlagðar tekjur kr. 203.005 (eftir skatta 173.735). Ástæða þess að hann fær nákvæmlega sömu tekjur er sú að séreignalífeyririnn skerðir krónu á móti krónu af framfærsluuppbótinni frá TR sem hann hafði fengið til þessa.

Hann reiknaði svo út að það væri ekki fyrr en við úttekt á 29.878 krónum af séreiganarlífeyri á mánuði sem hann fengi 1 krónu til viðbótar í vasann. Sem sagt þó hann tæki á árinu 358.536 krónur út af séreignalífeyri fengi hann bara 12 krónur aukalega í vasann af allri þeirri upphæð.

Jóni var mjög brugðið og vildi þá kanna hvort þetta gilti fyrir hvaða upphæð sem væri og fór að reikna fleiri dæmi. Uppgötvaði hann að því digrari sjóði sem maður hefur því meira færðu hlutfallslega til ráðstöfunar. Niðurstaða hans varð eftirfarandi:

Úttekin séreignalífeyrir  á mánuði (fyrir skatt) Heildartekjur (fyrir skatt) frá TR + séreign-lífeyrir (býr einn) Heildarútborgun  (ráðstöfunartekjur) TR+séreignalifeyrir Viðbótartekjur til ráðstöfunar
         0 203.005 173.735  
  25.000 203.005 173.735        0
  29.876 203.005 173.735        0
  29.878 203.006 173.736        1
  50.000 223.128 186.344 12.609
  70.000 243.128 198.495 24.760
  80.000 253.128 204.471 30.736
100.000 273.128 216.423 42.688


„Gifti Jón“ fær 12 krónur af 387.600 í vasann

Jóni lék nú forvitni á að vita hvort að þetta yrði ekki betra ef hann væri giftur.

„Gifti Jón“ var með alveg sömu stöðu og hann sjálfur, forsendur breyttust þó örlítið því bótaflokkurinn heimilisuppbót, í almannatryggingum TR , fellur út við að búa ekki einn. Jón komst hinsvegar að því að „gifti Jóni“ færi enn verr út úr þessu. Hann fengi fyrst 1 krónu í vasann þegar upphæð séreignalífeyrisgreiðslu væri orðin 32.300 krónur. Á ársgrund- velli  fengi „gifti Jón“  12 krónur af 387.600 króna séreignalífeyrisgreiðslu sinni, sjá töflu:

Úttekin séreignalífeyrir  á mánuði (fyrir skatt) Heildartekjur (fyrir skatt) frá TR + séreignalífeyrir (býr ekki einn) Heildarútborgun  (ráðstöfunartekjur) TR+séreignalifeyrir Viðbótartekjur til ráðstöfunar
        0 174.946 156.153  
 25.000 174.946 156.153       0
 32.297 174.946 156.153        0
 32.300 174.948 156.154        1
 50.000 192.648 167.245 11.092
 70.000 212.648 179.777 23.624
 80.000 222.648 186.043 29.890
100.000 242.648 198.208 42.055

 

Bent skal á að hér eru tekin mjög einföld dæmi þar sem skerðingar vegna launatekna, eða greiðslna úr lífeyrissjóði eru ekki að skerða aðra bótaflokka ofan á það sem hér er sýnt, einnig skal ítrekað að séreignalífeyririnn skerðir eingöngu framfærsluuppbótina. Dæmi margra örorkulífeyrisþega geta orðið verri.

Ráðamenn hafa  komið fram í fjölmiðlum að undanförnu og lofað það kerfi sem lífeyrisþegar búa við og rætt hve vel sé gætt að því að þeir sem minnst hafa lendi ekki undir útgefið lágmarksframfærsluviðmið lífeyrisþegar. Í dag er það viðmið  kr. 173.735 hjá einstaklingi sem býr einn en hjá þeim sem er giftur eða býr ekki einn kr. 156.153 eftir skatt. Spurning vaknar hvort ráðamenn og launþegar almennt myndu sætta sig við að ef þeir tækju sambærilegar greiðslur út úr séreignasjóði yrðu laun þeirra skert með sambærilegum hætti?

—–

** Helmingur lífeyrisþega fær engar greiðslur úr lífeyrissjóði.

Samkvæmt tölum frá TR til ÖBÍ í sept. 2011, fengu 15.178 örorkulífeyrisþegar einhverjar greiðslur frá TR þar af fengu

  • 7.569 (48.87%) engar greiðslur úr lífeyrissjóði
  • 7.609 (50.13%) fengu einhverjar greiðslur úr lífeyrissjóði