Skip to main content
Frétt

Skerðing og afnám lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóðum til öryrkja

By 10. október 2006No Comments
Ragnar Aðalsteinsson hrl., sem fer með mál ÖBÍ vegna aðgerða lífeyrissjóðanna, hefur farið fram á með bréfi til Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, að fjármálaráðherra, Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri, og allir starfsmenn ráðuneytisins sem undir hann falla víki sæti við meðferð málsins og að málið verði falið fjármálaráðherra sem til þess verður skipaður, svo og ráðuneytisstjóra og starfsmönnum sem sérstaklega verða til þess skipaðir.

Í því framhaldi verður farið fram á að staðfestingar verði allar úr gildi felldar og synjað verði um staðfestingu á breytingum samþykkta lífeyrissjóðanna, enda séu þær andstæðar landslögum.

Fjármálaráðherra staðfestir breytingar á samþykktum þeirra 14 lífeyrissjóða sem hafa boðað afnám eða skerðingu örorkulífeyris, en þessar breytingar gerðu lífeyrissjóðirnir í því skyni að afla sér heimildar til að skerða eða afnema örorkulífeyrisgreiðslur til sjóðsfélaga sem þegar höfðu hafið töku örorkulífeyris.

Einn þeirra lífeyrissjóða sem tekið hafa þátt í þessum aðgerðum lífeyrissjóðanna gegn örorkulífeyrisþegum er Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda. Nú hefur komið í ljós að stjórnarformaður Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, Baldur Guðlaugsson, er jafnframt ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.

Þeir sem undirritað hafa bréf og þar með tekið ákvarðanir um breytingar á samþykktum lífeyrissjóðanna eru starfsmenn eða undirmenn Baldurs Guðlaugssonar ráðuneytisstjóra. Í 3. grein stjórnsýslulaga númer 37/1993 segir í 1. málsgrein 5. töluliðar. að starfsmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef næstu yfirmenn hans hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi eiga sjálfir sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Ekki verður hjá því komist að líta svo á að Baldur Guðlaugsson hafi sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Hann hefur sem formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda staðið fyrir breytingum á samþykktum sjóðsins sem ætlaðar eru til að svipta vissan hóp sjóðsfélaga verulegum hagsmunum. Höfðu þessir lífeyrissjóðir samráð og samvinnu um gerð breytinganna og voru þær gerðar í því skyni að svipta tiltekna sjóðsfélaga réttindum.

Fjármálaráðuneytið hefur tekið þá ákvörðun að staðfesta breytingar á samþykktum 14 lífeyrissjóða án þess að gætt hafi verið meginreglna stjórnsýsluréttarins um hæfi þeirra sem ákvörðun taka. Staðfestingarnar eru því allar haldnar þeim sama ágalla að vera ógildar frá upphafi.