Skip to main content
Frétt

Sömu tækifæri og hvati til atvinnuþátttöku

By 5. maí 2015No Comments

Ellen Calmon formaður ÖBÍ skrifaði grein í Reykjavík vikublað 1. maí þar sem hún bendir á að samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skal fatlað fólk eiga rétt til þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra þar með talið til atvinnuþátttöku.

Í dag á baráttudegi verkalýðsins mun í göngunni þramma hópur fatlaðs fólks og örorkulífeyrisþega. Krafan um atvinnu fyrir alla í samræmi við samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður söngur þeirra í dag. Krafan um jöfn tækifæri fatlaðs fólks og örorkulífeyrisþega til atvinnuþátttöku með viðeigandi aðlögun og fjárhagslegum hvata er megininntakið.

Fjárhagslegur hvati

Eins og lífeyriskerfið er uppbyggt í dag, annars vegar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og hins vegar frá lífeyrissjóðunum er fjárhagslegur hvati til að stunda hlutastarf, þó einkum vegna bótaflokks sem kallast sérstök framfærsluuppbót, enginn. Þeir sem hafa tækifæri til að vinna sér inn 30 – 40 þúsund krónur á mánuði hafa engan fjárhagslegan ávinning af því, þar sem innkoman skerðir lífeyririnn um nákvæmlega sömu upphæð. Í skýrslunniVirkt samfélag 1) sem Öryrkjabandalag Íslands gaf út á dögunum og fjallar um tillögur að heildstæðu kerfi starfsgetumats og framfærslu á grundvelli þess er lagt til að sérstök framfærsluppbót verði sameinuð tekjutryggingu svo fjárhagslegur hvati til atvinnuþátttöku aukist. Þessu geta stjórnvöld breytt með skjótum hætti.

Hlutastörf við hæfi og viðeigandi aðlögun

Skert starfsgeta getur þýtt að viðkomandi hafi einungis starfsgetu til að sinna heimilislífi og eigin umhirðu, en hún getur einnig þýtt að viðkomandi geti stundað hlutastarf við hæfi. Þá er átt við sveigjanleg störf með viðeigandi aðlögun, þar sem tekið er mið af mismunandi skerðingum fólks með tilliti til vinnutíma, vinnutilhögun og vinnufyrirkomulag.

Í óformlegri könnun sem ÖBÍ gerði síðastliðið vor kom í ljós að fá hlutastörf með hæfilegum sveigjanleika og aðlögun voru í boði fyrir fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu en fjölga þarf slíkum störfum. Þar þyrfti ríki og sveitarfélög að ganga fram með góðu fordæmi, enda stórir atvinnurekendur. Ein leið til þess væri sú að skylda yrði að ráða ákveðið hlutfall starfsfólks með skerta starfsgetu. Þá er nauðsynlegt að komið verði á löggjöf um bann við mismunun á vinnumarkaði á grundvelli fötlunar til að tryggja rétt fatlaðs fólks á vinnmarkaði þannig að það þurfi ekki að óttast að missa starf vegna fötlunar.

Framfærsla skal tryggð

Þá er einnig mikilvægt að geta þess að í hverju samfélagi er og verður ávallt hópur fólks sem getur ekki og mun aldrei geta stundað vinnu. Þessum hópi samfélagsins sem og öðrum örorkulífeyrisþegum skal ávallt tryggð framfærsla sem er í takti við dæmigerða framfærslu hvers tíma og er í dag ríflega 300.000 krónur.

Að lokum vil èg hvetja þig til að skrifa undir àskorun til stjórnvalda á obi. is að lögfesta Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fòlks

Sjáumst í göngunni í dag!

Baráttukveðjur,

Ellen Calmon formaður ÖBÍ