Skip to main content
Frétt

Spor í rétta átt í málefnum fatlaðs fólks

By 14. ágúst 2012No Comments

skrifar Hrefna Óskarsdóttir, verkefnisstjóri ÖBÍ, í grein í Morgunblaðinu 13. ágúst.

Þann 11. júní sl. samþykkti Alþingi tvö mikilvæg mál sem varða málefni fatlaðs fólks. Annað þeirra var þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2012-2014 og hitt var frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011 (ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk). Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) fagnar þessum áfanga og telur að þetta skipti fatlað fólk miklu máli. Með þessum samþykktum er stigið mikilvægt skref til að nálgast markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en hann stuðlar að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra.

Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2012-2014

Framkvæmdaáætlunin tekur mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland undirritaði í mars 2007. Hún byggir á félagslegri sýn á fötlun en samkvæmt henni eiga samfélagslegar hindranir stóran þátt í að skapa fötlun einstaklings. Áætlunin skiptist í tvo hluta. Í fyrsta lagi er sett fram stefna í málefnum fatlaðs fólks sem nær til ársins 2020, en annar hluti áætlunarinnar nær til 2014. Eitt af meginmarkmiðum hennar er að „íslenskt samfélag byggist á virðingu fyrir fjölbreytileika og viðurkenningu á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika“ og að „tryggt verði að fatlað fólk njóti mannréttinda og mannfrelsis til jafns við aðra.“ Í rannsóknum hefur komið fram að fötluðu fólki finnst það ekki eins rétthátt og annað fólk. Við ýmsar aðstæður upplifir það að vera ekki viðurkennt sem fullgildir samfélagsþegnar, að ekki sé gert ráð fyrir því og að skoðanir þess séu ekki teknar alvarlega. Í síðari hluta koma fram útfærslur á einstökum verkefnum þar sem fram koma markmið og leiðir til að fjarlægja þær hindranir sem koma í veg fyrir að fatlað fólk geti tekið fullan þátt í samfélaginu.

Málasvið áætlunarinnar eru átta talsins. Að mati ÖBÍ eru þau öll jafn mikilvæg og tengjast innbyrðis. Sjónum er beint að mannréttindum og sviðin hafa með aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu að gera. Manngert aðgengi getur verið mikil hindrun fyrir fatlað fólk, en ríkjandi viðhorf samfélagsins, sem byggir oft á tíðum á vanþekkingu, hefur ekki síður áhrif. Breyta verður þessu viðhorfi meðal annars með því að bjóða upp á aukna fræðslu og upplýsingar. Vert er að minnast sérstaklega á eitt málasvið áætlunarinnar, þar sem fjallað er um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en hann mun í framtíðinni hafa gífurleg áhrif á mannréttindi. Þar segir að stefnt sé að því að leggja fram frumvarp fyrir Alþingi um fullgildingu hans eigi síðar en á vorþingi 2013. ÖBÍ telur brýnt að þau orð standi og að gengið verði hið fyrsta frá endurskoðun á þýðingu samningsins sem samkvæmt áætluninni á að vera lokið.

Framkvæmdaáætlunin nær til þriggja ára og gert er ráð fyrir að hún verði endurskoðuð að þeim tíma liðnum. ÖBÍ leggur áherslu á að markvisst verði unnið að því að fatlað fólk fái viðurkenningu og að viðhorf í samfélaginu gagnvart fötluðu fólki verði í samræmi við það. Framkvæmd áætlunarinnar skiptir höfuðmáli og er það von ÖBÍ að við endurskoðun hennar komi í ljós að þau háleitu markmið sem þar koma fram hafi náðst.

Lög um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011

Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011 voru samþykkt á Alþingi 11. júní 2011, og voru þau mikil réttindabót. Kafli um ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk var samþykktur sem hluti af lögunum nákvæmlega ári síðar. Með honum er réttindagæsla fatlaðs fólks og eftirlit með þjónustunni bætt til muna, en eftirliti var ábótavant, eins og kemur m.a. fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010.  Með lögum um ráðstafanir til að draga úr nauðung er einnig tekið mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar segir í 14. grein að tryggja þurfi að fatlað fólk njóti réttar til frelsis og mannhelgis til jafns við aðra og  að ekki megi svipta fatlað fólk frelsi sínu með ólögmætum hætti eða að geðþótta og þar á fötlun í engum kringumstæðum að réttlæta slíkt.

Nauðung í þjónustu við fatlað fólk hefur tíðkast, í flestum tilvikum til að hindra að einstaklingur valdi sjálfum sér eða öðrum líkamstjóni, eða til að uppfylla grunnþarfir einstaklingsins svo sem varðandi mat, heilbrigði og hreinlæti. Lögum, reglum og eftirliti hefur þó verið ábótavant á þessu sviði og hafa hagsmunasamtök fatlaðs fólks lagt ríka áherslu á að bætt verði úr því. Í þessum nýju lögum er skýrt kveðið á um að ef beita þurfi nauðung verði að fara eftir ákveðnum verkferlum og sækja um leyfi til sérstakrar undanþágunefndar. Þá verður sérfræðiteymi skipað sem veitir ráðgjöf um aðferðir til að koma í veg fyrir nauðung. Eftirlit verður í höndum sama teymis sem fær skýrslur frá þjónustuaðilum um beitingu nauðungar.

ÖBÍ lýsir ánægju sinni með að loks hafi verið tekið á réttindamálum fatlaðs fólks, en telur mikilvægt að við innleiðingu laga sem draga eiga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk sé nauðsynlegt að standa að öflugri fræðslu um málefnið. Veita þarf forstöðufólki og starfsfólki ráðgjöf með það að markmiði að koma í veg fyrir að nauðungar sé þörf í starfi með fötluðu fólki. Tryggja þarf að eftirlit ráðuneytisins virki sem skyldi. Réttindagæsla fatlaðs fólks hefur tekið miklum framförum, en ávallt má betur gera og að mati ÖBÍ þarf að auka starfshlutfall réttindagæslumanna til muna. Nú eru átta réttindagæslumenn starfandi í tæplega 5 stöðugildum fyrir allt landið og margir hverjir sinna fjölmennum eða stórum og strjálbýlum svæðum. Mikilvægt er að fólk hafi greiðan aðgang, í heimabyggð, að þeim einstaklingum sem standa eiga vörð um réttindi þess.

Lokaorð

Stefnuyfirlýsingar stjórnvalda í málefnum fatlaðs fólks hafa oft á tíðum einkennst af háleitum markmiðum um jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna. Þessi markmið hafa því miður ekki alltaf náðst og eftirfylgni laga hefur verið ábótavant þannig að þau réttindi sem eru í orði kveðin hafa ekki skilað sér sem skyldi. ÖBÍ vonar að með framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 og lögum um réttindagæslu fatlaðs fólks nr. 88/2011 verði málefnum fatlaðs fólks betur komið, en eins og fyrr segir skiptir framkvæmdin öllu máli.

Hrefna K. Óskarsdóttir

Verkefnisstjóri Öryrkjabandalags Íslands