Skip to main content
Frétt

„Staðreynd málsins er einfaldlega sú að ég þarf á aðstoð að halda“

By 10. desember 2013No Comments

Ágústa Eir Gunnarsdóttir sækir um stöðu jafnréttismálaráðherra til að benda á þörfina á NPA aðstoð.

„Ég tel mig afar hæfa í umrætt embætti og er þess fullviss að íslenskt samfélag yrði ekki svikið af vinnuframlagi mínu ef ég fengi tækifæri til að sýna og sanna hvað ég hef uppá að bjóða,“ segir Ágústa Eir Gunnarsdóttir, meðeigandi í NPA miðstöðinni og mannréttindafrekja í opnu bréfi til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og alþingismanna.

Í bréfinu sækir Ágústa um stöðu jafnréttismálaráðherra, en hún segist hafa haft af því spurnir að það standi til að fjölga ráðherrum og telur að það sé góð hugmyndind að stofna sérstakt jafnréttismálaráðuneyti.

„Ég styð þá hugmynd heilshugar, enda tel ég að jafnréttismál, almennt, þurfi og eigi að fá meira vagi í íslensku samfélagi. Vitundarvakning fólks, s.s. hinna svokölluðu minnihlutahópa, hefur leitt af sér auknar kröfur til jafnréttis og er það vel. Afar mikilvægt er að jafnréttismálum sé meiri gaumur gefinn og að tryggt sé að allir þegnar samfélagsins búi við jafnan rétt í öllum atriðum. Þetta á við um alla; konur, samkynhneigt fólk, börn, fólk af erlendum uppruna, fatlað fólk, í stuttu máli alla þá sem, af einhverjum ástæðum, búa við skert mannréttindi,” segir Ágústa.

Vill fá NPA

Ein af ástæðum umsóknarinnar er sú að Ágústa hefur nú í nokkurn tíma beðið eftir svörum um NPA frá Reykjavíkurborg. NPA er notendastýrð persónuleg aðstoð sem einstaklingar geta sótt um frá sínu sveitarfélagi. NPA felst í að fatlað fólk ráði það aðstoðarfólk sem það kýs sjálft. Aðstoðarfólk vinnur samkvæmt starfslýsingu sem fatlað fólk semur og samræmist lífstíl og kröfum viðkomandi. Viðkomandi fær greiðslur frá borginni sem hann notar til að greiða aðstoðarmönnum sínum. Ágústa, sem er blind, vill geta ráðið sér sitt eigið aðstoðarfólk og hætt að reiða sig á vini og fjölskyldu til að aðstoða sig við athafnir daglegs lífs.