Skip to main content
Frétt

Stefnir stjórnvöldum fyrir brot á stjórnarskrá – ÖBÍ styður málaferlin

By 26. nóvember 2012No Comments

Dagrún Jónsdóttir öryrki hefur í dag stefnt Katrínu Júlíusdóttur fjármálaráðherra og Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins og Sigríði Lilly Baldursdóttur, forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins fyrir hönd Tryggingastofnunar, til að greiða sér liðlega 2,1 milljón króna vegna vangoldinna almannatryggingabóta á árinu 2012. Þess er krafist að dómstólar viðurkenni að bætur almannatrygginga sem hún hefur fengið á árinu 2012 dugi ekki til eðlilegrar framfærslu og að ríkið hafi þannig ekki uppfyllt skyldu sína til fullnægjandi aðstoðar samkvæmt 76. grein stjórnarskrárinnar.

Í stefnunni er sýnt fram á að bætur Dagrúnar þurfa nánast að tvöfaldast til að duga til framfærslu hennar samkvæmt viðmiðum sem stjórnvöld hafa sjálf gefið út. Ennfremur krefst hún þess að viðurkennt verði með dómi að bætur almannatrygginga til hennar skuli hækka í samræmi við launaþróun þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs, en vísutölutenging bótanna hefur ítrekað verið numin úr gildi undanfarin ár. Öryrkjabandalag Íslands styður Dagrúnu í þessum málaferlum enda getur niðurstaða þeirra haft veruleg áhrif á kjör öryrkja og lífeyrisþega í landinu.

Dagrún Jónsdóttir, sem er barnlaus og býr ein, er óvinnufær vegna örorku. Hún hefur engar tekjur nema örorkubætur og mánaðarlegar bætur hennar á árinu 2012 voru 202.956 krónur fyrir greiðslu skatta. Í stefnunni er vísað til þess að íslenska ríkið hafi sjálft skilgreint þann mánaðarlega kostnað sem einstaklingar og fjölskyldur þurfa að greiða til að lifa eðlilegu lífi. Í skýrslu sérfræðingahóps sem velferðarráðuneytið hefur gefið út eru birt viðmið sem eiga að gefa heildstæða mynd af útgjöldum einstaklinga og fjölskyldna og miðast við kostnað sem greiða þarf eftir að búið er að greiða skatta af tekjum. Samkvæmt hinu opinbera neysluviðmiði eru mánaðarleg útgjöld barnslauss einstaklings sem býr í eigin húsnæði kr. 291.932, en til að geta staðið undir þeim útgjöldum þarf einstaklingurinn að vera með kr. 399.482 í mánaðartekjur fyrir greiðslu skatta. Það er því ljóst að bætur Dagrúnar þurfa nánast að tvöfaldast eigi hún að geta lifað eðlilegu lífi samkvæmt skilgreiningu stjórnvalda.

Réttur til mannsæmandi lífs

Í stefnunni er vísað til þess að í 76. gr. stjórnarskrárinnar er Dagrúnu tryggður réttur til aðstoðar svo hún geti lifað eðlilegu mannsæmandi lífi. Núverandi bótagreiðslur leiði hins vegar til þess að hún lifir í fátækt og því telur hún að ríkið hafi ekki uppfyllt skyldur sínar sem bundnar eru í stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Bent er á að löggjafinn hefur ekki frjálst val um hvernig hann aðstoðar öryrkja til framfærslu og að hrun íslenska bankakerfisins eitt og sér er ekki nægjanlegt til að réttlæta skerðingu mannréttinda. Ríkinu beri að forgangsraða með málefnalegum hætti en ekki hafi verið sýnt fram á að sá sparnaður sem náðist með því að skerða rétt öryrkja hafi verið nauðsynlegur eða að þeim sparnaði hafi ekki mátt ná með öðrum hætti sem hefði ekki bitnað eins harkalega á lífsviðurværi öryrkja. Í stefnunni kemur fram að það er í andstöðu við 76. gr. stjórnarskrárinnar að fela ráðherra að ákvarða réttindi einstaklinga en ákvörðun um upphæð bóta árin 2011 og 2012 var tekin af ráðherra en ekki Alþingi.

Meginregla laganna um almannatryggingar er að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við launaþróun, þó þannig að hækkun þeirra sé aldrei minni en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Frá árinu 2007 til dagsins í dag hefur þessi meginregla verið afnumin margsinnis með bráðabirgðaákvæðum og bætur öryrkja þannig verið skertar að raunvirði. Með því að afnema rétt til þessarar hækkunar bóta hefur eignarréttur Dagrúnar verið skertur í bága við 72. grein stjórnarskrárinnar og eignarréttarákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Bent er á að ekki hafi verið gætt jafnræðis við tekjuskerðingar í þjóðfélaginu þar sem aðrir hópar, sem hafa sætt tekjuskerðingu á síðustu árum hafi fengið þær skerðingar leiðréttar.

Nánari upplýsingar veitir  Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ. S: 530 6700 /  895 1307

Umfjöllun í fjölmiðlum um málið: