Skip to main content
Frétt

Stílbrot ef bætur öryrkja hækka ekki.

By 26. júní 2006No Comments
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) náðu þann 22. júní sl. samkomulagi um endurskoðun kjarasamninga sem munu gilda út árið 2007. Einnig náðist fram viljayfirlýsing frá ríkisstjórn Íslands um aðgerðir sem styðja við það markmið að ná niður verðbólgu.

Í Fréttablaðinu 26. júní segir Sigursteinn Másson, formaður ÖBÍ, meðal annars um samkomulagið að hann telji einsýnt að hækkun atvinnuleysisbóta um fimmtán þúsund krónur sem ríkisstjórnin hyggst beita sér fyrir muni einnig ganga til elli- og örorkulífeyrisþega. “Annað væri stílbrot“.

Sigursteinn segir einnig að samningurinn sé sá besti fyrir öryrkja sem hann hafi séð í langan tíma þó skattleysismörkin hefðu þurft að hækka meira til að vinna gegn þeirri rýrnun sem orðið hafa á undanförnum árum.

Hér fer á eftir stutt samantekt á aðalatriðum samningsins (upplýsingarnar eru teknar af vef ASÍ), Samkomulag ASÍ og SA tekur gildi 1. júlí 2006 en þar er samið um:

 • 15.000 kr. taxtaviðauka á alla mánaðarlaunataxta kjarasamninga þessara aðila. Taxtaviðaukinn hefur ekki áhrif á laun annarra en þeirra sem fá greidd laun samkvæmt umsömdum launatöxtum. Starfsmenn sem eru á hærri launum en nemur launatöxtunum eftir hækkun eiga ekki rétt á hækkun sem nemur taxtaviðaukanum.
 • 5,5% launaþróunartrygging. Samkvæmt samkomulagi forsendunefndar ASÍ og SA skal starfsmanni sem er í starfi í júníbyrjun 2006 og hefur starfað samfellt hjá sama vinnuveitanda í a.m.k. 12 mánuði tryggð að lágmarki 5,5% launahækkun á þeim tíma. Hafi launahækkun starfsmannsins verið minni á tímabilinu skulu laun hans hækka frá 1. júlí 2006 um þá upphæð sem á vantar til að 5,5% hækkun sé náð.
 • Lágmarkslaun (fullt starf) hækka í 123.000 kr. á mánuði.
 • Kjarasamningar halda gildi sínu út árið 2007.
 • Í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem kemur til framkvæmda 1. janúar 2007 eru gert ráð fyrir:
 • Hækkun persónuafsláttar / skattleysismarka. Hækkun mánaðarlegs persónuafsláttar einstaklinga úr 29.029 krónum í 32.150, það er hækkun skattleysismarka úr 79 í 90 þúsund. Skattleysismörkin verða verðtryggð.
 • Barnabætur verða greiddar til 18 ára aldurs í stað 16 ára núna.
 • Tekjuskattslækkun verði 1% um næstu áramót í stað 2% eins og fyrirhugað var.
 • Endurskoðun á útreikningi vaxtabóta með tilliti til hækkunar á fasteignaverði.
 • Framlög til fullorðinsfræðslu og starfsmenntamála verði aukin á árinu 2007. Tekið verði á málefnum útlendinga á vinnumarkaði í samræmi við tillögur ASÍ og SA og nægjanlegt fjármagn tryggt til verkefnisins.
 • Vinnumarkaðurinn treystur og unnið gegn gerviverktöku og ólöglegri atvinnustarfsemi
 • Hækkun atvinnuleysisbóta frá 1. júlí 2006. Grunnfjárhæð atvinnuleysisbóta hækki um 15.000 krónur og að hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta hækki í 185.400 krónur þann 1. júlí 2006.

Fyrirkomulag bótagreiðslna elli- og örorkulífsþega verður ákveðin í samræmi við fyrrgreindar hækkanir.

Orðrétt segir í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um þennan lið: „Tilhögun breytinga á fyrirkomulagi bótagreiðslan elli- og örorkulífeyrisþega er til umfjöllunar á öðrum vettvangi þar sem nánari útfærsla þessara mála verður ákveðin til samræmis við fyrrgreinda ákvarðanir“.


Ítarlegri upplýsingar um samkomulagið og öll fyrlgiskjöl með samningnum má finn á vef ASÍ.