Skip to main content
Frétt

Stoppum í fjárlagagatið

By 18. september 2012No Comments

Sjá tillögur Maríu Óskarsdóttur í grein hennar í Morgunblaðinu 14. september síðastliðinn.

Nú er því miður ekkert hægt að sækja lengur til öryrkja og eldri borgara. Þá er nauðsynlegt að finna aðrar leiðir til skattheimtu eða niðurskurðar. Hér kemur uppástunga um eina góða sem virkar og sparar ríkinu verulegar fjárhæðir þegar til lengri tíma er litið.

Öryrkjar sem eru í hjónabandi eða sambúð eru skertir um 15% af tekjum sínum miðað við einstakling sem er öryrki.

Hér er tillaga sem miðar að því að skerða laun allra ríkisstarfsmanna, sem eru í sambúð eða hjónabandi eða bara búa með öðrum fullorðnum einstaklingi, um 15%. Ríkisstarfsmenn eru um það bil 23.000 eða 12% þjóðarinnar og af þeim áætlað að í hjónabandi eða sambúð séu um það bil 75%. Skerðum ríkisstarfsmenn, sem búa með öðrum fullorðnum, um 15% af launum þeirra. Hvað ætli sú aðgerð myndi spara ríkinu? Hvernig ætli ríkisstarfsmönnum litist á þá hugmynd?

Í dag hafa hjón og sambúðarfólk sem eru öryrkjar tryggð laun sem eru kr. 174.946 fyrir hvort þeirra, fyrir skatt. Það gerir kr. 156.153 til að lifa af hvern mánuð.

Neysluviðmið velferðarráðuneytisins segir að ofangreint fólk þurfi kr. 161.137 á mann á mánuði til að lifa af, húsnæðiskostnaður er ekki í þeirri tölu. Við þetta má bæta að öryrkjar og eldri borgarar fá ekki nema lítið brot af kostnaði greitt sem styrk/uppbót vegna kaupa á heyrnartækjum en þingmenn samþykktu í vor að þeir fengju sjálfir ókeypis heyrnartæki og gleraugu.

María Óskarsdóttir
formaður Sjálfsbjargar á Húsavík og í Þingeyjarsýslum og í kjarahóp ÖBÍ.