Skip to main content
Frétt

Svar ÖBÍ við yfirlýsingu ASÍ fyrr í dag

By 8. nóvember 2007No Comments
Öryrkjabandalag Íslands lýsir furðu sinni og hneykslan á yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands sem send var fjölmiðlum og fleiri aðilum í dag þar sem veist er með persónulegum og ómálefnalegum hætti að formanni ÖBÍ vegna gagnrýni sem ÖBÍ hefur haldið uppi á hugmyndir ASÍ og SA um svokallaðan áfallatryggingasjóð.

Fullyrt er í yfirlýsingu ASÍ að fátt af fullyrðingum Sigursteins eigi við rök að styðjast og séu í engu samræmi við þær tillögur og hugmyndir sem ASÍ og SA hafi haft til umræðu. Engin tilraun er hins vegar gerð til að útskýra hvað hér er átt við. Þá segir í yfirlýsingu ASÍ að formaður Öryrkjabandalagsins hafi gengið svo langt að leggja Alþýðusambandinu til tilteknar skoðanir og óskað síðan eftir lögfræðiáliti á þessum tilbúnu skoðunum. ÖBÍ skorar hér með á Alþýðusamband Íslands að upplýsa nákvæmlega í hverju misskilningur ÖBÍ er fólginn og við hvað er átt með tilbúnum skoðunum formanns ÖBÍ.

Fyrir liggja gögn sem dreift hefur verið á fundum með fulltrúum stjórnvalda og víðar og sem ÖBÍ hefur undir höndum og lýsa hinum sameiginlegu hugmyndum ASÍ og SA en þær má einnig nálgast að hluta til á vefsíðu Starfsgreinasambands Íslands. Í aðalfundarályktun Öryrkjabandalags Íslands sem einróma var samþykkt þann 6. október segir:

„ÖBÍ hafnar alfarið hugmyndum sem fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hafa kynnt um sérstakt tryggingakerfi fyrir hluta landsmanna. Jafnframt varar ÖBÍ við hugmyndum sem miða að einkavæðingu almannatrygginga, sem er augljós ávísun á mismunun.“

Stefna ÖBÍ verður því engan vegin persónugerð við formann bandalagsins einan.

ÖBÍ harmar að ASÍ skuli í yfirlýsingu sinni fara fram með gífuryrðum og ómálefnalegum fullyrðingum sem eiga ekki við nein rök að styðjast. ÖBÍ ætlar hins vegar ekki að falla í þann pytt að taka upp persónulegar árásir á einstaka forystumenn Alþýðusambandsins.

Reykjavík, 8. nóvember 2007

Framkvæmdastjórn ÖBÍ