Skip to main content
Frétt

Svör framboða við spurningum frá almenningi

By 26. apríl 2013No Comments

svörin eru á talmáli þar sem þau eru unnin upp úr gögnum rittúlka sem unnu á fundi ÖBÍ 13. apríl.

Spurningar frá almenningi til fulltrúa framboða til Alþingis svarað á fundi ÖBÍ um kjaramál 13. apríl 2013

Svörin eru rittúlkuð og því í talmálsformi.

 Spurningar frá almenningi

1. Nú er almannatryggingakerfið mjög letjandi og er öryrkjum haldið í gíslingu í núverandi kerfi. Sem dæmi eru skerðingar ef viðkomandi sparar, fær vinnu, eignast maka og barn verður 18 ára. Ætlar þinn flokkur að laga kerfið af einhverju viti til að hvetja öryrkja til að taka þátt í samfélaginu í stað þess að halda þeim niðri?

2. Vilja frambjóðendur beita sér fyrir því að bætur miðist við neysluviðmið velferðarráðuneytisins þannig að fólk njóti mannréttinda í samfélagi okkar? Persónuafsláttur verði hækkaður og jaðarskattar og nefskattar afnumdir.

3. Þegar öryrki verður 67 ára fellur niður svokölluð aldurstengd örorkuuppbót. Þegar hún var sett á var það til að bæta þeim upp sem ekki geta aflað sér lífeyrisréttinda. Ætla frambjóðendur að gera eitthvað í málinu?

4. Af hverju gerist það enn á árinu 2013 að veikt fólk sé betlarar? Af hverju er ekki litið á þessa einstaklinga sem meðborgara með mannréttindi? Hvort viljið þið ölmusukerfi eða réttindakerfi?

Svör framboða

Ögmundur Jónasson, Vinstri grænum:

Varðandi fyrstu spurninguna þá svara ég játandi, ég tel að kerfið eigi að vera hvetjandi en ekki letjandi til að afla tekna og því eigi að draga úr viðmiðunartekjum og þeim mörkum sem þar eru sett. Varðandi 67 ára aldurinn, man ekki röðina á þessu, þar á að koma inn aldurstengd uppbót til þeirra sem fengið hafa örorkubætur, þá tel ég það vera rétt. Varðandi persónuafsláttinn og þróun atvinnuleysisbóta að það eigi að hækka persónuafsláttinn og skattleysismörkin þar með, þá hef ég verið þeirrar skoðunar að það eigi að vera í ríkara mæli en verið hefur tekjutenging inni í skattleysismörkunum, þau eigi að virka síður inn í hátekjufólkið og frekar inn í þau lakari en það var gríðarlegt framfaraskref þegar við tengdum persónuafsláttinn inn í kjaraskerðinguna og það er leiðrétting frá hægri stefnu, stefna Reagans svo að þeir ríku geti bakað sitt brauð og einhverjir molar falla af til hinna, það er stefna sem við eigum að hafna.

Pétur Blöndal, Sjálfstæðisflokki:

Já ég er víst þessi hægri maður, einn af þeim vondu en ég tel að hægra kerfið hafi virkilega mikið hlutverk í þjóðfélaginu. Nú kerfið á að vera þannig að okkar mati, það þarf að afmarka þessi 75%, þarf að koma stighækkandi örorkumörk og maður megi vinna eins og hann geti algerlega óskert. Þetta voru hugmyndir sem voru kynntar og ræddar mikið í Bollanefndinni og ÖBÍ veit af þessu og er fullkunnugt um og þá geta menn unnið og fá svo bætur varðandi hinn hlutann sem öryrkjar.

Varðandi að fjármagnstekjur voru einu sinni 50% og það tók mið af því að stór hluti eru ekki tekjur, verðbætur og annað. Við höfum hugleitt það þannig að koma með raunvexti frekar til frádráttar en neikvæða nafnvexti. Varðandi aldurstengdu örorkuuppbótina, það þarf að endurskoða það, það er óréttlátt að þeir sem fara ungir á lífeyri fá meiri bætur en hinir og það eiga allir að vera jafn settir þarna en auðvitað eiga menn ekki að lækka við að fara á ellilífeyri. Varðandi að veikt fólk sé gert að betlurum, það er mjög brýnt að skoða allt velferðarkerfið, á því eru göt og að sumu leyti er um að ræða vantryggingu og það þarf að fá ÖBÍ með okkur í að skoða þetta og ég vona að það verði breyting á því.

Helgi Hjörvar, Samfylkingu:

Viljum við að kerfið sé hvetjandi? Já. mikil ósköp. Þess vegna innleiddum við til að mynda 100.000 kr. frítekjumark í atvinnumálum öryrkja og það er helsta formið sem við eigum að leggja áherslu á í nýju kerfi. En það tókst að fá samstöðu um það á vinnumarkaði að setja gríðarlega fjármuni, milljarða á milljarða ofan í endurhæfingu, sem vantar á Íslandi í að koma í veg fyrir að fólk verði öryrkjar og skapa störf og þess háttar. Ásamt nýjungum í NPA þá eru þetta mikilvægir áfangar í almennu umhverfi. Ég held að krafan um að fólk fái aldurstengdu uppbótina áfram sé sannarlega eitthvað sem hægt sé að styðja en ég hef sagt að við erum tilbúnir að endurskoða örorkubótakerfið og skila aftur þeim skerðingum sem þar urðu og þar munu áherslur ÖBÍ á forgangsröðun peninganna vega þungt, það er ekki hægt að gera allt fyrir alla og hverfa frá jaðarsköttum, ef menn gera það eru þeir að setja peninga ríkisins í auknum mæli til þeirra sem hafa hærri tekjur, helmingur öryrkja hafa engar framfærslutekjur og við viljum forgangsraða í þeirra þágu.

Harpa Njálsdóttir, Regnboganum:

Já takk, við viljum hvetja til þátttöku öryrkja eindregið og ég tel það mikið framfaraskref að fólk geti unnið fyrir 100.000 kr. á mánuði án þess að það skerði bætur og ég tel að það þurfi að ganga lengra því það er til bóta fyrir allt samfélagið, að fólk geti lifað með reisn og verið þátttakandi í samfélaginu. Ég hef aldrei talað fyrir því að afnema eigi allar skerðingar en það þarf að beita þeim skynsamlegar, það er tiltekið hér að þegar barn verður 18 ára gamalt, ég gef mér að ef 18 ára barn býr með einstæðri móður, þá missi hún heimilisuppbót sem er verulegur stuðningur þegar barnið verður 18 ára. Börn á þessum aldri, það er mikilvægt að þau eigi kost á því að taka þátt og vera í námi og ljúka því til að bæta afkomu sína. Það er gífurlega mikilvægt að gera ráðstafanir og þau geti búið heima 20 til 22 ára gömul og það sé ekki skerðingar.

Það er spurt hvort bæta eigi neysluviðmið velferðarráðuneytisins, ég er ekki hlynnt því, er á móti því, því þarna er verið að taka meðaltalsneyslu Hagstofunnar hér á landi. Það veit í raun enginn fyrir hverju það dugir eða hvernig það deilist út. Eins og ég nefndi áðan þá tel ég mikilvægt að hið opinbera komi upp framfærsluviðmiði sem byggir á framfærslu og að laun miðist við það, ég legg áherslu á að ég tel þetta ekki raunhæft viðmið og eins þegar öryrki verði 67 ára þá missi hann aldurstengdu örorkuuppbótina. Mér fannst skerðingin alltaf brött, þegar þetta var komið á, þá var búið að skerða þessa upphð um 50% þegar einstaklingur var 35 ára og þessu var breytt en einstaklingur á ekki að líða fyrir það að verða 67 ára.

Hildur Sif Thorarensen, Pírötum:

Nú er spurt hvort við viljum hafa kerfið letjandi en ég sagði áðan að ég vil hafa það hvetjandi, þar skiptir endurhæfing lykilmáli, því það er fyrir fólk sem vill vinna og getur það. Það er reiknivél sem hægt er að reikna út framfærslu, við getum áætlað um 270.000 til ferða og húsnæðis og hvernig á fólk að geta lifað með það sem þið hafið? Já ég vil virkilega leggja mig fram um að hækka grunnframfærslu. Varðandi aldurstengdu örorkuna þá hef ég ekki skoðað það en mun gera það og ég styð aukinn rétt. Réttindakerfi já, ekki er nóg með að hafa tekjur og tekjutengingu í lagi, það þarf að einfalda kerfið. Ég er að klára master í verkfræði og ég skil ekki kerfið, það er ekki fyrir heilvita manneksju að skilja þetta kerfi, það þarf að einfalda það svo menn skilji og átti sig á því hvað fólk fær og hvers vegna. Takk fyrir.

Örn Bárður Jónsson, Lýðræðsivaktinni:

Það er álit mitt að það eigi hvorki að letja virkan hug eða hönd og við eigum ekki að gera kerfið flatneskjulegt þannig að fólk megi ekki leggja hagkerfinu til með vinnu og bera úr býtum. Varðandi spurningu 2 er líka spurt um mikilvægan hlut og kallað eftir hvort fólk fái að njóta mannréttinda, ég svara að sjálfsögðu játandi, það þarf að skoða og eins í spurningu 3, það þarf að fara yfir þetta með 67 ára regluna. Og varðandi ölmusukerfi eða réttindakerfi vil ég auðvitað réttindakerfi. Ég vil ítreka með hægri, vinstri og upp og niður. Það er mikilvægt að skoða hvort flokkar hafi sögu um að skoða sérréttindi eða almannahag. Almannahagur er þar sem allir sitja við sama borð. Það þarf að skoða mál fatlaðra og öryrkja af skynsemi. Við þurfum að forgangsraða með mannréttindi í huga og réttlæti og sannleika.

Kjartan Örn Kjartansson, Hægri Grænum:

Ég er eiginlega búinn að svara spurningunum, einfalda bjúrókratískuna, en hvað finnst ykkur um þetta krakkar? Hér er talað um athuga, skoða og bla bla bla. Hvað er aðgerðaráætlunin? Vinur minn hérna, gömul eða ný stjórnarskrá, ekki borgum við reikninga með henni. Það þarf aðgerðir. Við greiðum ekki skuldir með stjórnarskrá. Bla bla bla, athuga, skoða, stefna. Voða fallegt en hvað er þetta í andskotanum? Við hjá Hægri grænum erum búin að setja fram aðgerðaplan og ef við verðum kosin verður það sett 1. september. Farið á xg.is því þar munuð þið sjá heildræna hugsun, lausnir sem ganga upp. Þið verðið að lesa þetta sjálf því Guð minn almáttugur, annars gerist ekkert, áfram blaður og blaður, afsakið. Takk fyrir mig.

Vigdís Hauksdóttir, Framsóknarflokknum:

Hér eru komnar þessar 4 spurningar. Þetta er svipað að Framsóknarflokkur vill heilbrigðisvæða heilbrigðiskerfið en ekki sjúklingavæða, við viljum hvetjandi kerfi og réttindakerfi. Við viljum horfa raunsætt á þetta. Auðvitað eigum við að hvetja til að öryrkjar geti tekið sem mestan þátt og aflað sér tekna. Þannig aukum við lífsgæði og jafnan eins og í heilbrigðiskerfi að að því sé stefnt að þeir sem fái lækningu og geti stundað vinnu án þess að það sé mikil skerðing á móti. En Framsóknarflokkur leggur áherslu á samábyrgð þeirra sem geta ekki verið á vinnumarkaði. Mér finnst dæmalaust að Ögmundur ráðist á kerfið sem að var varðandi fatlaða og öryrkja. Framsókn hefur ekki verið í stjórn í 6 ár. Vinstri flokkarnir hafa haft tækifæri til að laga kerfið en í staðinn er ráðist á það. Hluti af því sem við þurfum að fara í er að einfalda skattkerfið. Það er forgangsmál líka, það er búið að hækka skatta 240 sinnum á kjörtímabilinu. Mér skilst að þetta séu lokaorð og ég þakka fyrir og hvet ykkur til að kjósa Framsóknarflokkinn.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, Flokki heimilanna:

Ég vil hvetja þá sem hér eru að hafa í huga x-i. Þar er fólk sem er heiðarlegt hugsjónafólk en varðandi spurningarnar á það að sjálfsögðu að vera þannig að bætur almannatrygginga verði einstaklingsmiðaðar, annað er mannréttindabrot. En varðandi neysluviðmið velferðarráðuneytisins. Auðvitað á að fara eftir því, það vantar 115.000 hjá hverjum öryrkja sem einstaklingi upp á velferðarviðmið. Í sambandi við öryrkja sem eru orðnir 67 ára, hættið þið að vera öryrkjar þá? Ég hélt að fólk þyrfti sín lyf og þennan fastakostnað sem þarf að reiða af hendi ef þú ert öryrki. Við munum að sjálfsögðu breyta þessu ef Flokkur heimilanna kemst til áhrifa. Í sambandi við hvort fólk eigi að vera betlarar eða búa við ölmusukerfi eða réttindakerfi. Auðvitað eiga öryrkjar og eldri borgarar að búa við réttindakerfi. Af hverju erum við með Amnesty og þeir eru bara að skoða mannréttindabrot erlendis, hvernig væri að horfa á eigið illgresi?

Margrét Tryggvadóttir, Dögun:

Takk fyrir spurningarnar. Að sjálfsögðu á almannatryggingakerfið ekki að refsa þeim sem vilja bjarga sér sjálfir. Það er grundvallarkerfi hjá okkur í Dögun, að fólk nýti þá getu sem það hafi en ekki það sem það getur ekki gert. Það þarf að auka gegnsæi og einfalda kerfið og við þurfum að geta skilið það. Breyturnar eru margar og fólk áttar sig oft ekki á, og það er alvarlegt, að ef eitthvað breytist í lífi þess getur það fengið bakreikning. Varðandi neysluviðmiðin, þetta er hluti af okkar stefnu, ekki endilega neysluviðmið velferðarráðuneytisins, það er meðaltal. En við þurfum að finna hvað kostar að vera til og tryggja öllum þá upphæð og það er á okkar stefnuskrá að hækka persónuafslátt. Öryrkjar hætta ekki að vera öryrkjar 67 ára og við höfum fullan hug á að gera eitthvað í því. Kerfi á að vera réttindakerfi, það er til skammar að fólk þurfi í biðröð til að bíða eftir mat. Takk.

Heiða Kristín Helgudóttir, Bjartri framtíð:

Já ég hef mikinn hug á því og finnst mikið baráttumál sem við ættum öll að sameinast um, að snúa þessu kerfi þannig við að það að vera á örorku geti falið í sér að þú sért virkur þjóðfélagsþegn, það vill enginn vera vanvirkur. Við þurfum að innleiða öflugri færnimöt, hvað fólk getur verið virkt í. Við erum að gera þetta í miklum móð varðandi fólk sem hefur verið langtímaatvinnulaust, nýtum þekkinguna þar. Varðandi neysluviðmiðin finnst mér þess virði að taka þær til mikillar endurskoðunar því eins og kemur fram vitum við ekki hvað kostar að vera til í dag og viðmiðin eru mismunandi. Auðvitað hættir maður ekki að vera öryrki við að eiga 67 ára afmæli. Varðandi ölmusukerfi eða réttindakerfi, lykilatriðið er að við þurfum að skoða efnahagsmál og stjórnmálakerfi til lengri tíma. Höfum ekki efni á að fá alltaf efnahagshrun. Við þurfum að stýra þjóðarskútunni í bjarta átt, x-a. Takk fyrir.

Tengill á myndbönd og önnur svör frá fundi ÖBÍ 13. apríl 2013 með framboðunum.